Í vor efndi Wift og Doris Film á Íslandi til handritasamkeppni meðal kvenna. Doris film verkefnið er aðlögun að sænsku verkefni sem hófst árið 1999 og ól af sér níu stuttmyndir og kennsluefni um kynjahlutföll í kvikmyndum og nú liggja úrslit fyrir.

Í Svíþjóð komu inn 406 tillögur í keppnina sem fór þvert á það sem kvikmyndamiðstöð þar í landi hafði haldið fram; að konur bara skrifi ekki. Doris Film á Íslandi hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði til jafnréttismála sem varð til þess að verkefnið fór af stað hér á landi en verkefnastjóri er Dögg Mósesdóttir.

Þátttakan hér heima fór fram úr björtustu vonum en alls bárust 102 sögur keppninni sem er enn betri árángur en í Svíþjóð ef miðað er við hina “frægu” höfðatölu. Sett var saman 10 manna dómnefnd, framleiðenda, leikstjóra og handritshöfunda.  Kynjahlutföll dómnefndarinnar voru öfugt við það sem tíðkast í kvikmyndageiranum, 8 konur og 2 karlar en oft er talað um að aðeins 20% starfa innan kvikmyndageirans séu í höndum kvenna. Dómnefndina skipuðu framleiðendurnir Anna María Karlsdóttir, Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Hanna Björk Valsdóttir, Hlín Jóhannesdóttir, Hrönn Kristinsdóttir, Rakel Garðarsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Baldvin Z  leikstjóri og Óttar M. Norðfjörð handritshöfundur.

Sautján handrit hlutu hæstu einkunn dómnefndar en af þeim voru ellefu valin til úrslita.  Samkeppnin var nafnlaus í fyrstu umferð, en allar sögur þurftu að hafa a.m.k eina kvenpersónu í aðalhlutverki. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Noreg og stefnan er að í kringum 5 handrit fari í framleiðsluferli. Myndirnar verða unnar eftir Doris Film sáttamálanum þar sem allar myndirnar eiga að hafa, í það minnsta, eina konu í aðalhlutverki, allar listrænar ákvarðanir og aðalábyrgðarstöður eiga vera í höndum kvenna og öll frumsamin tónlist á að vera samin af konum. Wift og Doris Film á Íslandi vilja þakka öllum sem tóku þátt en margar góður sögur bárust keppninni sem geta vonandi átt framhaldslíf utan Doris.

Við birtum hér annars vegar lista yfir þær 17 sögur sem fengu hæstu einkunn hjá dómnefnd og hins vegar þær 11 sögur sem komust áfram í úrslit:  Borgarbarnið Júlía, Andartakið, Geymt en ekki gleymt, Græðlingur, One of them, Qividoq, Sex á stofu, Type and release, Uppljómað sálarástand klaufdýra, Þessi besti aldur, Frosin, Endurfæðing, Eikí Breikí Hjarta, Illska,  Kvalfjörður, Sublime-inal, Dúfnaskítur á reglugerðunum

Af þessum sögum komust eftirfarandi 11 sögur í úrslit:  “Borgarbarnið Júlía” eftir Bjargeyju Ólafsdóttur, “Andartakið” eftir Ástu Hafberg,  “Geymt en ekki gleymt” eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur, “Græðlingur” eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur, “One of them” eftir Evu Sigurðardóttur, “Qividoq” eftir Sóleyju Kaldal, “Sex á stofu” eftir Ásdísi Sólrúnu Halldórsdóttur, “Type and release” eftir Söru Sigurbjörns- og Öldudóttur, “Uppljómað sálarástand klaufdýra” eftir Lilju Sigurðardóttur, “Þessi besti aldur” eftir Ísgerðir Elfu Gunnarsdóttur og “Frosin” eftir Ýr Þrastardóttur

Við óskum höfundum innilega til hamingju!