Þjóðfundur Kvennaárs 2025 – Rosalie Rut Sigrúnardóttir skrifar

Í tilefni Kvennaárs 2025 var haldinn Þjóðfundur þann 1. mars síðast liðinn fyrir konur á aldrinum 16-30 ára. Fyrir hönd WIFT á Íslandi fóru þrjár öflugar ungar konur í kvikmyndagerð til þess að taka þátt á þjóðfundinum, Rosalie Rut Sigrúnardóttir, Jana Arnarsdóttir og Katla Gunnlaugsdóttir.

Rosalie Rut skrifar eftir þjóðfund Kvennaárs 2025:

Hver er staðan á jafnrétti í dag? Hefur verið nóg um baráttu og breytingar eða er enn þörf á
frekari aðgerðum? Er Ísland á réttri leið í jafnréttismálum, eða stendur það í stað – jafnvel að
dragast aftur úr? Hvernig er staða kvenna og kvára í samfélaginu? Er hún í samræmi við okkar
væntingar? Er þriðja vaktin að hverfa, eða eru konur jafnvel undir meiri pressu en áður? Þurfum
við ef til vill að uppfylla fleiri kröfur til að teljast „fullnægjandi“ konur í nútímasamfélagi.

Allar þessar spurningar og margt fleira var til umræðu á Þjóðfundi ungra kvenna og kvára um
jafnréttismál í tilefni Kvennaárs 2025. Fundurinn fór fram í Safnaðarheimili Háteigskirkju þann 1.
mars síðastliðinn – á afmælisdegi mínum, sem var merkileg reynsla að þurfa að horfa með
gagnrýnum augum á sjálfan sig, samfélagið og heiminn allan ekki bara á draumaspjaldinu
mínu(inspirational board) heldur í opinberri umræðu.

Fundargestum var skipt í níu hópa, hver með fimm til átta þátttakendum auk ritara/hópstjóra.
Hóparnir fengu ákveðnar spurningar og umræðuefni til að ræða innan takmarkaðs tíma. Að því
loknu kynnti hver hópur niðurstöður sínar fyrir öllum fundargestum. Þó hóparnir nálguðust
viðfangsefnin með ólíkum hætti og deildu mismunandi reynslusögum, kom í ljós að margir
grunnþættir baráttunnar eru þeir sömu, hvort sem um er að ræða heimilislíf, stjórnmál eða
atvinnulífið.

Eitt af því sem var sérstaklega rætt var þolinmæðis þröskuldur kynjanna(tengt double standard
hugtakinu). Karlmenn fá almennt meira rými til að gera mistök, á meðan konur og kvár – eða við
öll sem föllum ekki undir þessa hefðbundnu æðri skilgreiningu á gagnkynhneigðum, hvítum
körlum – þurfa að forðast jafnvel minnstu mistök í valdamiklum stöðum. Þegar kona gerir mistök
er því oft kennt um kyn hennar, á meðan mistök karlmanna eru rakin til starfsvenja,
stjórnmálaskoðana eða annarra þátta en ekki auðvelda svarið að hann sé jú (bara) karlmaður.

Fundurinn var afar áhugaverður og mikilvægar umræður áttu sér stað. Ég hlakka til að sjá
samantektina sem verður gefin út en ég vonast til að hún skapi tilefni til frekari umræðu og
aðgerða í átt að raunverulegu jafnrétti. Samfélagið okkar er að breytast hratt – kannski aðeins of
hratt á mjög mörgum stöðum; meiri einangrun, aukin hatursumræða og hræðsluáróður, bakslög,
meiri neikvæð opinber umræða og mikill hraði á hinum ýmsu málefnum.

Tengjum við kvikmyndagerðina við núverandi samfélag þurfum við að huga að því hvernig við
viljum að næstu ár þróist. Við verðum að spyrja okkur hvort við fylgjumst með þessari núverandi
þróun og hvernig þessar breytingar hafa áhrif á fagfólk í greininni. Þá er einnig mikilvægt að
meta hvort þær stuðli að raunverulegri jafnréttisþróun og tryggi jöfn tækifæri fyrir öll – óháð kyni,
kynhneigð, trú, fötlun eða bakgrunni – innan kvikmyndaiðnaðarins. Eða hvað viljum við?
Sérstaklega, hvað viljum við félagsmenn og stjórnendur WIFT? Finnst okkur vinnuumhverfið
sem við störfum í vera fullnægjandi? Er kvikmyndagerð jafnréttisvæn? Eru tækifærin í greininni
einsleit, eða eru dyrnar opnar fyrir okkur öll? Eða er allt fullkomið?

Deila
Scroll to Top