Ný könnun, þar sem skoðuð voru 112 kvikmyndaverk, afhjúpar hvernig íslenskar kvikmyndir eru fjármagnaðar og hvaða menningarhagræn áhrif íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur. 44% framleiðslukostnaðar er erlent fjármagn. 72,75% af framleiðslukostnaði verkanna eru launagreiðslur. Íslenskar kvikmyndir og kvikmyndaverk greiða að fullu framlag opinberra aðila á framleiðslutíma verkanna.
Í umræðu sem vaknaði í aðdraganda og kjölfar stórfells niðurskurðar kvikmyndasjóða í fjárlögum fyrir árið 2010, kom í ljós þörf fyrir frekari upplýsingar um fjármögnun íslenskra kvikmyndaverka. Þessi niðurskurður nemur 35% miðað við samning milli menntamála- og fjármálaráðherra og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð frá 2006, en samkvæmt honum áttu framlög að nema 700 milljónum árið 2010.
Félög kvikmyndagerðarmanna sendu út fyrirspurnir til framleiðenda 140 verka og fengust 112 svör (80% svarhlutfall). Meginniðurstöður þessarar könnunar eru þær að samtals nam framleiðslukostnaður verkanna rétt tæpum 12 milljörðum króna. Fjármögnun var þannig háttað að um 13% framleiðslukostnaðar kom úr kvikmyndasjóðum, 9% fjármagns var í formi endurgreiðslna af framleiðslukostnaði frá Iðnaðarráðuneyti, 34% var annað innlent fjármagn og 44% framleiðslukostnaðar var erlent fjármagn.
Samhliða framleiðslufjármögnun var launahlutfall kannað í lykilverkefnum af þeim sem könnunin tekur til. Niðurstaðan er að 72,75% af framleiðslukostnaði verkanna voru launagreiðslur, hvort heldur til verktaka eða fastráðinna starfsmanna. Þessir tveir liðir tryggðu ríkissjóði greiðslur í formi skatttekna á um 2,7 milljörðum króna, eða að fullu það framlag sem opinberir aðilar lögðu í fjármögnun verkefnanna. Þannig greiðir greinin til baka að fullu framlag opinberra aðila á framleiðslutíma verkanna.
Við það að skera framlag íslenskra kvikmyndasjóða niður um 240 milljónir króna eins og gert er í fjárlögum 2010, mun greinin verða af 5 milljarða tekjum á árunum 2010–2013. Með afleiddum störfum munu því tapast í kringum 300 störf. Til samanburðar má benda á að atvinnu-leysisbætur 300 manna í eitt ár nema tæpum 540 milljónum króna1.
Framlag íslenskra kvikmyndasjóða er skilyrði fyrir umsóknum í erlenda kvikmyndasjóði, sem m.a. leggja fram það fjármagn sem eftir stendur til að tryggja framleiðslu verkanna. Vilyrði frá íslenskum kvikmyndasjóðum eru þannig aðgöngumiðar að frekara fjármagni. Þann aðgöngumiða greiða kvikmyndaframleiðendur að fullu til baka við framleiðslu verkanna.
Íslensk kvikmyndaverk hafa gífurlegt gildi fyrir þjóðina. Það er nauðsynlegt menningu hennar að framleitt sé efni á íslensku fyrir Íslendinga. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn færa þjóðinni slíkt efni.