Ertu að leita að fjármagni?
Hér eru upplýsingar um ýmsar leiðir til að fjármagna verkefnið þitt/ykkar.Creative Europe – Media
Creative Europe – Media Kvikmynda og menningaráætlun ESB 2014-2020 er ætlað að styrkja samkeppnishæfni hinna skapandi – og menningarlegu greina og efla menningarlega fjölbreytni. Áætlunin skiptist í MEDIA/kvikmyndir sem styður kvikmyndir og margmiðlun og Culture/Menning sem styrkir menningu og listir. Upplýsingastofa Creative Europe á Íslandi er til húsa hjá Rannís og þar starfa Ragnhildur Zoega, Sigríður Margrét Vigfúsdóttir og Hulda Hrafnkelsdóttir.
Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Creative Europe: https://culture.ec.europa.eu/creative-europe
EURIMAGES
EURIMAGES er sjóður sem starfar á vegum Evrópuráðsins og veitir til samframleiðslu evrópskra kvikmynda og heimildamynda í fullri lengd. Ísland hefur verið þátttakandi í sjóðnum síðan 1992 og hafa fjölmargar íslenskar kvikmyndir hlotið styrki úr sjóðnum. Aðildarlönd eru 36. Umsóknarferlið krefst mikils undirbúnings og því gott að kynna sér ferlið til hlítar. Eurimages veitir styrki til lokafjármögnunar og hægt er að nálgast allt að 10-12% fjármögnun þaðan.
Frekar upplýsingar og umsóknarferli er hægt að skoða á heimasíðu EURIMAGES: https://www.coe.int/en/web/eurimages/
Kvikmyndamiðstöð Íslands
KMÍ styrkir kvikmyndagerðarfólk og það er hægt að sækja um hvenær sem er. Það tekur 6-10 vikur að afgreiða umsóknina.
Kvikmyndasjóður veitir styrki til:
Handritsgerðar
Þróunar verkefna
Framleiðslu íslenskra kvikmynda
Kynningar á íslenskum kvikmyndum
Styrkir skiptast í fjóra megin flokka:
Leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum
Stuttmyndir
Heimildamyndir
Leikið sjónvarpsefni
Kynningarstyrkir vegna þátttöku í ferðakostnaði
Íslensk kvikmynd þarf að vera boðin þátttaka í aðalsýningarflokki A-lista kvikmyndahátíðar og lykilaðstandendur kvikmyndarinnar leggja í kostnað við að styðja við kynningu kvikmyndarinnar á þeim vettvangi.
Styrkurinn skal mæta ferðakostnaði á vettvang kvikmyndahátíðar.
Gert er ráð fyrir að unnt sé að styrkja lykilaðila sem koma að gerð kvikmyndar eins og leikstjóra, aðalleikara eða viðlíka.
Kostnaður við uppihald, gistingu og ferðir á vettvangi er ekki styrkhæfur.
Styrkir til þátttöku í vinnustofum
Veittir eru styrkir til kvikmyndagerðarmanna sem valdir hafa verið til þátttöku í alþjóðlega viðurkenndum vinnustofum og námskeiðum. Styrkveitingar eru háðar fjárveitingum og stöðu sjóðs hverju sinni.
Viðurkennd námskeið og vinnustofur hafa að jafnaði verið auglýst á vef Kvikmyndamiðstöðvar þar sem tilgreind eru skilyrði umsókna.
Kvikmyndamiðstöð velur ekki þátttakendur í þessum tilvikum, en getur í sumum tilvikum komið til móts við kostnað þátttakenda.
Umsókn skjal fylgja:
Boð og staðfesting á þátttöku á viðkomandi vinnustofu/námskeið
Áætlun um kostnað þátttöku
Styrkir kvikmyndahátíða innanlands
Veittir eru styrkir til kvikmyndahátíða innanlands sem eru til þess fallnar að efla kvikmyndamenningu og auka fjölbreytni kvikmynda sem sýndar eru almenningi. Styrkveitingar eru háðar fjárveitingum og stöðu sjóðs hverju sinni.
Sótt um styrki til að mæta kostnaði við framkvæmd kvikmyndahátíðar hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Hægt er að fá frekari upplýsingar um styrki og sækja um á heimasíðu Kvikmyndamiðstöðvar: www.kvikmyndamidstod.is
Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn
Tilgangur Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins er að efla framleiðslu norræns kvikmynda- og sjónvarpsefnis, með því að taka þátt í lokafjármögnun bíómynda, sjónvarpsmynda og þáttaraða og skapandi heimildamynda. Aðilar að sjóðnum eru norrænu kvikmyndastofnanirnar og sjónvarpsstöðvar í almanna- og einkaeigu. Á Íslandi eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, RÚV og Stöð 2 aðilar að sjóðnum. Hægt er að lesa reglurnar um NFTF á íslensku á heimasíðu sjóðsins.
Hægt er að nálgast ítarlegri upplýsingar um úthlutanir á heimasíðu Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins: https://nordiskfilmogtvfond.com/funding
Listamannalaun
Listamannalaun eru fyrir sjálfstætt starfandi hönnuði, myndlistarmenn, rithöfunda, sviðslistafólk, tónlistarflytjendur, tónskáld og kvikmyndahöfunda.
Tilgangur listamannalauna er að efla listsköpun í landinu. Alþingi veitir árlega fé af fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við lög.
Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Rannís: https://www.rannis.is/sjodir/menning-listir
Reykjavíkurborg
Árlega eru veittir styrkir til margvíslegra verkefna á sviði lista og menningar í borginni. Hægt er að sækja um styrki fyrir menningarstarfsemi, bæði einstök verkefni eða samstarfssamninga til 2-3 ára.
Hægt er að sækja styrki að hausti og fagnefnd fer yfir allar umsóknir.
Frekari upplýsingar er hægt að nálgar á vefsíðu Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/styrkir
Menningarstyrkur Seðlabankans
Tilgangur með Menningarstyrknum sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóðir hafa fengið í arf. Formaður úthlutunarnefndar er Hildur Traustadóttir en aðrir í nefndinni eru Jón Þ. Sigurgeirsson, fulltrúi menningar- og viðskiptaráðherra og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Jóhannes Nordal var seðlabankastjóri frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961 og gegndi því embætti til 1993. Hann var formaður þriggja manna bankastjórnar frá 1964 til 1993. Jóhannes var fæddur árið 1924 og lést í mars 2023.
Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vef Seðlabanka Íslands: https://www.sedlabanki.is/um-sedlabankann/menningarstyrkur/