WIFT á Íslandi ályktar eftirfarandi um nýútgefna kvikmyndastefnu til næstu tíu ára.
Við fögnum því að ráðist hafi verið í það viðamikla verkefni að gera stefnu fyrir íslenska kvikmyndagerð til ársins 2030. Við teljum brýnt að horft sé fram í tímann í þeim tilgangi að setja markviss, háleit markmið fyrir svo mikilvæga starfsgrein sem kvikmyndagerð er, bæði menningarlega og efnahagslega.
Einnig lýsum við ánægju okkar með þau fjögur markmið sem sett eru í þessari stefnu, enda væri það til bóta fyrir samfélagið allt ef þau ná fram að ganga.
Okkur þykir hins vegar grátlegt, svo ekki sé minna sagt, að í engu þessara markmiða, skuli vera minnst á leiðréttingu kynjahalla í íslenskri kvikmyndagerð, en eins og kunnugt er og allar rannsóknir styðja, þá hallar verulega á konur í nánast öllum hornum kvikmyndagerðar. Þetta er að okkar mati algjörlega óviðunandi.
Í viðauka I, er ein setning sem tæpir á þessu. Tilvitnun: „Efla þarf umhverfið með tímabundnum hnitmiðuðum aðgerðum til að jafna hlut kvenna en mikið hefur hallað á þær þegar litið er til fjölda umsókna og styrkja.“
Þessi setning er ágæt útaf fyrir sig, en betur má ef duga skal, og við teljum brýnt að setja mun skýrari markmið í þessum efnum.
Áætlun til næstu tíu ára hefði til dæmis verið kjörið tækifæri fyrir alla hagaðila, til að setja markmið um jafnan hlut kynja varðandi styrkveitingar frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Slíkt markmið er það minnsta sem hægt er að ætlast til þegar ráðist er í svo viðamikið verkefni sem þessi stefna er.
Leiðrétting á kynjahalla snýst ekki eingöngu um réttindi og hag kvenna í kvikmyndagerð í dag, nema síður sé. Hún snýst um mikilvægi þess að öll kyn hafi jöfn tækifæri til að segja sögur úr sínum samtíma. Hún snýst um þau grundvallarréttindi lýðræðisríkis, að öll kyn eigi jafnan rétt þegar kemur að því að starfa á þeim vettvangi sem þau kjósa, án þess að þurfa að berjast fyrir tilverurétti sínum og tækifærum umfram önnur kyn. Hún snýst um að komandi kynslóðir fái að sjá kvikmyndir og sjónvarpsefni sem samið er og leikstýrt af fleiri kynjum en karlkyni. Hún snýst um það að önnur kyn en drengir geti horft á kvikmynd og hugsað; „Já, kvikmyndagerð! Það er eitthvað fyrir mig“. Og svo framvegis því listinn er langur.
Einnig viljum við nefna þá sorglegu staðreynd, að í viðauka IV kemur skýrt fram að ekki var leitað álits hjá hagsmunafélaginu WIFT á Íslandi. Við tökum þessu þannig að nefndin líti ekki á WIFT sem hagaðila og við spyrjum: Hvernig má það vera að eina félagið á Íslandi sem gætir að hag og réttindum kvenna í þessari starfsgrein sé ekki álitið hagaðili?
Í því samhengi ber að nefna tíu blaðsíðna skjal með tillögum sem WIFT vann fram, en það skjal var sent á alla nefndina. Í þessu skjali er m.a. lagt til að kvennaverkefni fái tímabundið 20% hærri styrkveitingar en karlaverkefni til að flýta fyrir framförum. Þessar tillögur voru unnar fram að beiðni Kvikmyndamiðstöðvar til þess að koma af stað árangursríkum aðgerðum til þess að jafna hlut kvenna í faginu. Það er óskiljanlegt og sárt að sjá að ekkert mark hefur verið tekið á skjalinu né vinnunni sem þar liggur á bakvið.
Að auki bendum við á að WIFT var með fulltrúa í nefndinni eftir að félagið kom fram með ályktun sem varð til þess að kynjahallinn í nefndinni var lagaður.
Enn fremur þykir okkur ótrúlegt að enginn þeirra 243 einstaklinga sem svöruðu samráðskönnun nefndarinnar, hafi nefnt leiðréttingu kynjahalla sem verðugt markmið. Þetta gefur til kynna að um hafi verið að ræða leiðandi spurningar, þar sem jafnrétti kynja kemur hvergi við sögu.
Tilvitnun „Ráðist var í gerð umfangsmikillar samráðskönnunar sem var send rafrænt til um 500 aðila, sjálfstæðra og valinna fagaðila og félagasamtaka í þeim tilgangi að ná til sem flestra sem aðkomu hafa að kvikmyndagerð á Íslandi. Þar var leitast við að kynna upplegg að markmiðum og aðgerðum fyrirhugaðrar kvikmyndastefnu og kallað eftir mati og forgangsröðun á þeim og kallað eftir hugmyndum að nýjum aðgerðum sem erindi ættu í vinnu hópsins. Alls bárust svör frá 243 einstaklingum og þátttakan stóðst því væntingar hópsins.“
Við gerum þá kröfu að unnið verði fram fimmta markmiðið í stefnuna, markmið sem miðar að því að ná jafnrétti kynja á öllum vígstöðum íslenskrar kvikmyndagerðar fyrir árið 2030. Við bjóðum fram krafta okkar í að semja þetta markmið í samráði við setta nefnd.
Að lokum viljum við benda á að tilvitnunin í kvikmyndina Síðasta veiðiferðin: „Á þetta að vera skemmtiferð eða ætlum við að taka konurnar með?“ er niðrandi fyrir konur. Okkur þykir það verulega óviðeigandi að taka svo afgerandi níðsetningu úr samhengi og setja hana í opinbert skjal. Þessu „tilvitnanaslysi“ hefði auðveldlega verið hægt að afstýra ef leitað hefði verið álits hjá WIFT á vinnslutíma stefnunnar. Við förum fram á að þessi setning verði fjarlægð úr stefnunni og að ný tilvitnun verði sett í staðin.
Stjórn WIFT á Íslandi