Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir kvikmyndagerðarkona er fallin frá, 69 ára að aldri. Anna Theodóra var mjög virk innan WIFT á Íslandi og viljum við félagsmenn WIFT á Íslandi senda öllum hennar aðstandendum samúðarkveðjur. 

Meðal verka Önnu Theodóru er þáttaröðin Allir litir hafsins eru kaldir frá 2005 en hún leikstýrði og skrifaði handrit þeirra. Einnig skilur hún eftir sig tvær stuttmyndir Kalt borð (1998) og Hlaupaár (1994) sem hún skrifaði og leikstýrði.

Önnu Theodóru var margt til lista lagt en hún vann sem leikmyndahönnuður hjá RÚV um skeið. Einnig sá hún um leikmyndina í kvikmyndinni Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen árið 1992. Anna hannaði líka plakat og kynningarefni fyrir myndina Með allt á hreinu frá árinu 1982, hina margrómuðu Stuðmannamynd.

Árið 2010 kom út bók eftir Önnu, Ritun kvikmyndahandrita – Praktísk handbók. Hún hafði þá verið að kenna handritsskrif við Kvikmyndaskóla Íslands og þótti vanta kennslubækur á íslensku um handritsskrif. Þróunarsjóður námsgagna styrkti ritun bókarinnar og svo lögðu margir hagsmunaðilar úr kvikmyndagreininni Önnu Theodóru lið við eftirvinnslu og prentun bókarinnar. 

Það má með sanni segja að Anna Theodóra hafi borið marga hatta í gegnum tíðina enda skilur hún eftir sig mikinn hugmyndaauð í riti og á stóra skjánum.