Í tilefni af yfirvofandi ráðningu nýs útvarpsstjóra hjá Rúv hefur stjórn Wift sent stjórn RÚV ohf áskorun um að virða jafnréttislög við ráðningu í stjórnunarstöður og um leið rétta hlut kvenna innan stofnunarinnar. Í áskoruninni segir m.a:

RÚV ohf er almannaútvarp í sameign þjóðarinnar og hefur þá einstöku stöðu að vera sýnilegt almenningi öllum stundum. Slíku fylgir rík skylda til að hlúa að samfélagslegum viðmiðum og lögum. Þannig styrkir RÚV ohf löggjöfina, eflir virðingu fyrir henni og sýnir fordæmi um það sem álitið er vera ákjósanleg samfélagsskipan.

RÚV ohf er gjarnan líkt við samfélagsspegil sem endurspeglar mynd af íslensku samfélagi hverju sinni. En líkt og aðrar speglanir hefur endurvarp þeirrar myndar sem RÚV ohf sýnir mótandi áhrif. Við trúum því sem fyrir augu ber, við trúum því að þetta sé hin raunverulega samfélagsgerð, við trúum því að hún sé réttmæt og við viljum gjarnan viðhalda henni sem hluta af arfleiðinni. Því er brýnt að endurvarpið sýni ekki eingöngu samfélagið eins og við teljum að það sé, heldur einnig eins og almennur vilji er til að það verði.

Því miður hefur sjónvarpið verið spéspegill þegar kemur að því að sýna og skrá hlutverk kvenna og framlag þeirra til viðgangs samfélagsins. Spéspegill, sem gefur villandi mynd af þátttöku kvenna í samfélagi nútímans og gerir hlut þeirra annan, og veigaminni, en hann raunverulega er. Á þetta hefur ítrekað verið bent en án nokkurra sýnilegra áhrifa.

Ábyrgðin á þessu liggur hjá þeim sem stjórna RÚV ohf. Hjá þeim sem taka ákvarðanir um dagskrárstefnu sjónvarpsins og því hvernig sú stefna er raungerð, stjórn RÚV ohf. og starfandi yfirstjórnendum. Þegar fráfarandi Útvarpsstjóri skildi við stofnunina voru, samkvæmt skipuriti, sex af sjö starfandi stjórnendum karlmenn. Þessi skipting hjá opinberri stofnun er óásættanleg og getur ekki viðgengist.

Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi (KIKS) telur að ekki verði lengur unað við þá skekktu mynd af stöðu kvenna í íslensku samfélagi sem dregin er upp í Sjónvarpinu. Komið sé að vatnaskilum nú þegar fyrir liggur að ráða þarf nýja stjórnendur að stofnuninni. Nú er tækifæri til, ef umsóknir um starfið og vilji stjórnar gefa tilefni til, að hefjast handa við útrýmingu kynbundinnar mismununar í yfirstjórn stofnunarinnar.

Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi skorar hér með á stjórn RÚV ohf. að hafa jafnréttislög landsins í hávegum við ráðningar í stjórnunarstöður hjá RÚV ohf. Áskorunin á ekki síst við um ráðningu nýs Útvarpsstjóra. Enn fremur að jafnréttisstefna RÚV ohf. verði höfð til hliðsjónar við ráðningarnar, líkt og kveðið er á um í þeirri stefnu. Jafnréttislögin skipa fyrir um jafnan rétt kynjanna til starfa hjá hinu opinbera og það að leitast skuli við að jafna hlutfall kvenna og karla í stjórnunarstöðum. Því mælist Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi til að stjórn RÚV ohf. gangist í ábyrgð fyrir markvissri leiðréttingu á kynbundinni mismunun. Að stjórnin gæti þess að sannreynanlegt hæfi sé sú forsenda sem stýrir því hvaða einstaklingur úr hópi umsækjenda hlýtur ráðningu. Að hver og einn umsækjenda njóti sannmælis og sé metin á réttmætum forsendum, sannreynanlegum sem huglægum. Það er sannfæring okkar að þegar að slík vinnubrögð liggja til grundavallar ráðninga í störf hjá hinu opinbera muni kynjahallinn hverfa. Það er rótgróið vanmat á hæfni kvenna en ekki skortur á hæfni, sem veldur því að á þær hallar og stjórn RÚV ohf. gerir vel að hafa það í huga við væntanlega ráðningu.

Stjórn Kiks (Wift á Íslandi),
Dögg Mósesdóttir, Kristín Jóhannesdóttir, Vera Sölvadóttir, Silja Hauksdóttir og Marsibil Sæmundardóttir