Hin síðari ár hefur mikið verið rætt um misjafna frammistöðu kynjanna í íslenskri kvikmyndagerð. Færri konur en karlar starfa t.d. við leikmyndagerð, leikstjórn, handritaskrif og kvikmyndatökur. Konur hefur einna helst verið að finna í búningahönnun og förðun, sem og í ýmsum skipulagsstörfum. Hin síðari ár hafa æ fleiri konur haslað sér völl sem framleiðendur. Er það gjarnan skýrt með því að í raun sé framleiðsla starf sem þarfnast nákvæmni og skipulagsgáfu, eiginleika sem venja er að líta á sem kvenlega. Á sama tíma virðist minna gert úr hinu skapandi hlutverki framleiðandans og hið listræna framlag enn álitið mælikvarði á raunverulegt mikilvægi starfa innan kvikmyndagerðar.
Þegar konur innan kvikmyndageirans hófu að skoða meint misrétti kom á óvart að eina misréttið virtist felast í launum. Staðreynd er, að konur eru almennt verr launaðar en karlar í svipuðum eða sambærilegum störfum innan kvikmyndageirans, leikkonur jafnt sem aðrir kvenkyns starfsmenn. Einnig er það ríkjandi að þau störf sem konur hafa sérhæft sig í umfram karla í kvikmyndagerð standa almennt lægra í virðingarstiga og fjárhagslegu endurgjaldi. Önnur bein merki um misrétti fundust ekki. Konur í greininni hafa sama aðgang og karlar að menntun og fjármagni og jafnvel hefur verið leitað sértæka leiða til að auðvelda konum þáttöku. Þrátt fyrir það er sókn kvenna í stuðning frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, hvort heldur er til handritaskrifa eða framleiðslu, mun minni en æskilegt þykir.
Af hverju stafar þá bág staða kvenna í greininni? Karlmiðuð menning. Skýringin virðist í fljótu bragði vera sú að hér sé á ferð “ósýnilegt” misrétti. Misrétti sem ríkir í samfélögum þar sem viðmiðið er karllægt og af menningarlegum toga spunnið. Viðfangsefni flestra kvikmynda heyrir til hinum karlmiðaða heimi. Þær fjalla um stríð, stjórnmál, glæpi og undirheima, hraða, spennu og kynlífsupplifanir karla. Konum er síður treyst til að stýra slíkum myndum og myndir í öðrum dúr njóta minni hylli. Vissulega er þetta ekki algilt en þó algengt.
Charlotte Perkins Gilman fjallar um karlmiðaða (e. androcentric) menningu í bókinni Our Androcentric Culture. Gilman er þeirrar skoðunnar að það sem kallað hefur verið “mannlegt eðli” miðist að mestu leyti einungis við karlmannseðlið. Einnig að mannfólkið búi við karlræði (androcracy) en ekki lýðræði (democracy). Samkvæmt Gilmore teljast karlleg viðmið hið “eðlilega” í mannlegu samfélagi. Hinar karlmiðuðu tilhneigingar eru fyrirmyndir þess sem kallast “mannlegt eðli” í þeim skilningi að gengið er út frá að mannkynið allt stjórnist af þeim . Ráðandi valdastigar og ytri stjórnunartákn í stofnunum samfélagsins eru karlmiðuð og mótuð af sjónarmiðum karla. Nánast alger yfirráð karla á sviði raun- og hugvísinda, studd af yfirburðum í valdaskipan byggðri á stjórn- og efnahagsmálum, olli því að völd karla og yfirburðir þeirra urðu að samfélagslegum lögmálum.
Fræðikonan Catherine MacKinnon tekur undir fullyrðingar Gilmore um að samfélagsleg viðmið séu hin karllægu viðmið. Hún segir: … fyrir nánast alla þá eiginleika sem gerir karla frábrugðna konum fá þeir jákvæða umbun. Íþróttir eru hannaðar út frá líkamlegum eiginleikum karla, þarfir þeirra liggja til grundvallar almennum tryggingarskilmálum, afrekaskrár þeirra í formi æviminninga móta væntingar á vinnustöðum sem og hugmyndir um hvernig skilgreina eigi góðan árangur í starfi, sjónarmið karla og val þeirra á viðfangsefnum er grundvöllur þess sem telst vera vönduð akademísk vinna, viðvera þeirra skilgreinir fjölskyldugerðina, lélegur árangur þeirra í að láta sér koma vel saman sem og stríðin og stjórnunaraðferðir hafa mótað mannkynssöguna, ímynd þeirra er fyrirmyndin að ímynd guðs og kynfæri þeirra móta skilgreiningar á kynlífi.”
Konur í sögunni. Skráð saga mannkyns er í raun og veru saga karlmanna, hins vel stæða vestræna kalmanns. Daglegs lífs kvenna, hugarheims þeirra og lífssýnar sér ekki stað nema í alhæfingum, ekki fremur en barna, lágstéttarfólks eða fólks af öðrum uppruna en mið-evrópskum. Gilman segir í bók sinni, Women and Economics,: “Forvitnilegt og átakanlegt er að rekja þau áhrif sem þessar kringumstæður hafa hægt og bítandi og af sífellt meiri þunga haft á konur. Líkt og önnur spendýr þurftu þær í öndverðu að lúta náttúrulögmálunum. Þar á ofan bættust síðan reglur og siðvenjur samfélags þar sem líkamlegir aflsmunir réðu ferðinni. Við það jókst réttindamunurinn. Með vaxandi siðmenningu innprentuðust sífellt fleiri fordæmi óslitið í hverja kynslóð. Þróun í sömu átt heldur áfram með sívaxandi áhrifamætti menntunar þar sem mismunandi hlutverk kynjanna er göfgað í listum, helgað í trúarbrögðum og gert æskilegt í hefðum.”
Sköpunarhæfni kvenna. Þetta er helsta ástæða þess kynjamunar sem finnst í kvikmyndagerð sem og í öðrum starfsgreinum. Endurskoða þarf ríkjandi gildismat og þær forsendur sem það byggir á. Skipulag atvinnulífs og samfélags er ekki náttúrulögmál. Því er hægt að breyta og tryggja að samfélagið njóti í sem ríkustum mæli framlags kvenna. Karllegir eiginleikar eru í eðli sínu ekki forsenda góðs árangurs. Hér að framan hefur verið bent á að kynbundið misrétti er menningartengt og að í gegnum menningu hvers tíma tileinki börn sér og læri að virða ríkjandi gildismat. Því er mikilvægt að huga að menningariðnaði og kvikmyndagerð sérstaklega, því þangað eru fyrirmyndir sóttar í sívaxandi mæli. Sú staðreynd að konur dreifa skapandi kröftum sínum víðar og á annan hátt en karlar á ekki að koma í veg fyrir að þær taki meiri þátt í gerð kvikmynda en nú er. Tiltölulega lítið er vitað um sköpunargáfu kvenna, þar sem karlmenn hafa að yfirgnæfandi meirihluta verið viðfangsefni þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á sköpunargáfu. Augljóst er þó að innri og ytri hindranir gera konum erfiðara fyrir en körlum. Sem ástæðu þessa nefnir Prófessor Sally Reis forgangsröðun, kynbundnar staðalímyndir, skort á stuðningi og úthaldi og vantrú á eigin getu. Rannsóknir sem Reis hefur framkvæmt sýna að þessi vantrú á eigin getu verður til þess að konur taka að sér stuðningshlutverk við aðra skapandi einstaklinga, hlutverk sem felur í sér að framkvæma eða raungera skapandi hugmyndir annarra. Á þá stöðu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð var bent í upphafi greinarinnar.
Að lokum nefnir Reis það sjónarmið kvenna að önnur störf þeirra, svo sem barnauppeldi og vinna innan heimilis, feli í sér sköpun sem oft á tíðum komi tímabundið í stað sköpunar á öðrum sviðum. Þessi skilningur kvenna á skapandi framlagi nýtur ekki mikillar virðingar og gildi þess er ekki hátt reiknað. Ástæðan er sú að skilgreiningar á skapandi framlagi byggja á hefðum sem þurfa ekki endilega að hafa mikla merkingu í dag. Þessu til staðfestingar nægir að nefna að listrænt framlag kvenna í gegn um tíðina hefur verið kallað handavinna eða heimilisiðnaður og litið á það sem notadrjúgt föndur.
Að lokum má nefna, ofangreindu til stuðnings, rannsókn á tengslum sköpunarhæfni og aldurs sem H. C. Lehman skýrir frá í Age and Achievement. Fram kemur að þroski einstaklingsbundinnar sköpunarhæfni og afköst af skapandi starfi hinna sömu einstaklinga eru í hámarki á sama æviskeiði og þegar heimilislíf og barnauppeldi gerir hvað mestar kröfur til tíma þeirra. Hefðbundin verkskipting skýrir því að nokkru leyti hvers vegna konur eru afkastaminni í atvinnulífi og skapandi störfum á því æviskeiði er hæfni þeirra er sem mest. Breytingar er þörf. Í því fyrirkomulagi sem æskilegt er að ríki innan kvikmyndageirans þarf að virða nálgun kvenna að skapandi störfum og gera ráð fyrir henni jafnframt því sem æskilegt er að karlar tileinki sér að einhverju leyti sömu eða svipaða nálgun. Það léttir byrðum af konum og minnkar til muna brottfall þeirra úr atvinnulífi og skapandi störfum.
Gera þarf gangskör að því að styðja ungar stúlkur sem áhuga hafa á kvikmyndagerð og koma í veg fyrir að þær flosni úr námi tengdu kvikmyndagerð, en það gerist oftar en ekki á seinni stigum framhaldsskóla. Með því að efla sjálfstraust þeirra, traust samfélagsins á þeim og styðja þær uns þær ná að fóta sig, verður unnt að stórauka framlag þeirra til kvikmyndagerðar. Þá munu reynsluheimur kvenna og kvenleg viðmið verða sýnilegri í kvikmyndum og jafn sjálfsögð hinum karllegu. Ný, breytt og mótandi áhrif kvikmynda munu þá stuðla að því að eyða kynbundinni sögubrenglun.
Kristín Atladóttir er höfundur greinarinnar og hefur vinsamlegast leyft wift.is að birta þetta efni. Er henni þakkað framtakið.