Hrafnhildur Gunnarsdóttir, leikstjóri og framleiðandi, hefur hlotið heiðursverðlaun WIFT og Margrét Örnólfsdóttir, handritshöfundur og tónlistarmaður hefur hlotið hvatningarverðlaun WIFT.

WIFT eru samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum á Íslandi. Samtökin eru alþjóðleg, starfa í rúmlega fjörutíu löndum og hafa um 10 þúsund skráða meðlimi. Verðlaun eru nú veitt í fyrsta sinn í tilefni af tíu ára afmæli samtakanna.

Hrafnhildur er formaður Félags kvikmyndagerðarmanna og hefur beitt sér í þágu kvikmyndagerðarfólks um margra ára bil. Hún hefur setið í stjórn kvikmyndaráðs frá 2013 og barðist meðal annars fyrir hinu mikilvæga ákvæði í nýju kvikmyndasamkomulagi um að jafna beri hlut kvenna og karla í úthlutunum úr Kvikmyndasjóði. Hún hefur einnig setið í stjórn Nordisk Panorama frá 2010 og verið formaður stjórnar þar síðustu þrjú ár.

Þá er Hrafnhildur farsæll leikstjóri og framleiðandi sjónvarpsþátta og heimildarmynda til fjölda ára. Meðal hennar helstu verka eru Corpus Camera, Hver hengir upp þvottinn, Lifandi í limbó, Stelpurnar okkar, Óbeisluð fegurð, Með hangandi hendi, Hrein og bein, Öldin hennar og Hvað er svona merkilegt við það. Síðastnefnda myndin hlautu áhorfendaverðlaun heimildarmyndahátíðarinnar Skjaldborg 2015. Hvað er svona merkilegt við það hlaut einnig Edduverðlaunin í flokki heimildarmynda 2015 og menningarverðlaun DV sama ár.

Hrafnhildur hefur í verkum sínum fjallað um mannréttindamál, jafnréttismál og baráttumál hinsegin fólks. WIFT þakkar henni fyrir sitt framlag til þessa mikilægu mála á ferli sínum hingað til og framtíðar verka hennar.

Margrét Örnólfsdóttir er handritshöfundur og tónlistarmaður. Hún hefur skrifað handrit að kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni, leikverk og skáldsögur og samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús. Margrét var hljómborðsleikari í hljómsveitinni Sykurmolarnir 1988–1992. Hún hefur verið formaður Félags leikskálda og handritshöfunda frá árinu 2013, ritari Bandalags íslenskra listamanna frá 2014 auk þess að sitja í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna.

Meðal helstu verka Margrétar eru handrit að sjónvarpsþáttunum Fangar, Réttur, Pressa, Svartir englar og Stelpurnar og dans- og söngvamyndin Regína sem Margrét samdi bæði handrit og tónlist að. Margrét vinnur nú að skrifum við þáttaröðina Ófærð 2. Hún hefur hlotið þrenn Edduverðlaun fyrir handrit sín ásamt því að hafa verið tilnefnd til Prix Europa 2013 fyrir Pressu 3.

Margrét er mjög virk á sínu sviði sem handritahöfundur og er framlag hennar til kvikmynda og sjónvarps á Íslandi gríðarlega mikilvægt. Ennfremur er Margrét mikilvæg fyrirmynd fyrir aðrar konur í greininni, fyrir bæði verðandi og núverandi handritahöfunda. WIFT fagnar því að sjá jafn öfluga konu taka svo virkan þátt í að móta persónur og sögur fyrir íslenska áhorfendur og komandi kynslóðir og hvetur Margréti áfram á sömu braut.

Stjórn WIFT á Íslandi