Hugleiðingar mínar um mitt hlutverk. Af hverju ætti ég að geta þetta? Af hverju er fólk að treysta mér fyrir þessu? Veit ég yfir höfuð hvað ég er að gera? Er ég nógu góð? “What do we do now? What can we do?” – Reese Witherspoon.
Þetta eru spurningar sem fara reglulega í gegnum höfuðið á mér. Sérstaklega þegar ég fer út fyrir minn þægindaramma og tek að mér nýtt verkefni. Sem getur verið ansi oft í lífi leikarans. Ég þjáist nefnilega af hræsnara heilkenni (e. Imposter syndrome). Og ég leyfi mér að fullyrða að mörg þekkja þessar hugsanir líka.
Í ræðu Reese Witherspoon á Women of the year árið 2015 talaði hún um hversu oft kvennpersóna í kvikmyndum spyrja þessara spurninga “What can we do now? What can we do?” Þegar við horfum við horfum á kvikmyndir og sjónvarp þá reynum við alltaf að samsvara okkur þeim persónum sem við eigum eitthvað sameiginlegt með. Þessar spurningar geta gefið þær hugmyndir að konur séu upp á karla komnar og geta ekki leyst þau vandamál sem koma upp. Ekkert skrítið að hræsnara heilkennið gerir vart við sig þegar þetta eru skilaboðin sem konur fá í gegnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti.
“”What do we do now?!” Do you know any woman in any crisis situation who has absolutely no idea what to do? I mean, don’t they tell people in crisis, even children, “If you’re in trouble, talk to a woman.” It’s ridiculous that a woman wouldn’t know what to do.”
Hægt er að sjá ræðuna í heild hér.
Ég reyni eftir bestu getu að ögra mér og fara út fyrir þægindarammann til að vaxa og dafna í starfi. Það er samt ansi huggulegt í þægindarammannum og það er allt í lagi að hvíla sig þar annað slagið.
Nýlega tók ég að mér stöðu formanns WIFT á Íslandi, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi. Þá fóru þessar hugsanir af stað í höfðinu á mér enn einu sinni.
Er ég með næga reynslu í bransanum til þess að sitja sem formaður svona félags? En það veit enginn hver ég er! Hver er ég? Af hverju ég? ÉG VEIT EKKERT OG KANN EKKERT!
Það getur verið hvimleitt að eiga við svona hugsanir. En eins og margt klárt fólk hafa kennt mér áður, þá skiptir mestu máli að rækta styrkleika sína. Ég veit að ég er skipulögð, góð í vinnu með öðru fólki og ákveðin. Síðan veit ég og kann ótrúlega margt! Síðan er góð áminning sem Demi Moore hafði orð á í þakkarræðu sinni á Golden Globe 2025; þú getur aldrei verið alveg nóg, þú getur þekkt verðleika þína og hættu að bera þig saman við annað fólk.
“I’ll just leave you with one thing that I think this movie is imparting. In those moments when we don’t think we’re smart enough or pretty enough or skinny enough or successful enough or basically just not enough — I had a woman say to me, just know, you will never be enough, but you can know the value of your worth if you just put down the measuring stick.”
Hægt er að sjá ræðuna í heild sinni hér.
Þá kemur að því líka að ég þurfti að minna mig á af hverju ég bauð mig fram sem formann WIFT. Jafnrétti skiptir mig miklu máli og ég fann mér vettvang til þess að geta látið gott af mér leiða og nota styrk minn og rödd til þess að hafa áhrif.
Ég er starfa í hópum sjálfstætt starfandi leikara og kvikmyndagerðafólks.
Ég er kona í íslensku samfélagi.
Þrátt fyrir að vera hvít, sís kona í þessu samfélagi, þá verð ég fyrir óréttlæti út af mínu kyni
Ég er femínisti.
Ég hef rödd.
Ég hef styrk til þess að nota eigin rödd og hverja aðra til þess að gera slíkt hið sama.
Mig langar að valdefla sís konur, kvár, trans konur, intersex einstaklinga og hinsegin konur, fatlaðar konur, konur af mismunandi kynþætti, mismunandi stærðum og óháð aldri til þess að taka pláss í sínu fagi í kvikmyndagerð og sjónvarpi.
Mig langar að það séu jöfn tækifæri fyrir öll í kvikmyndum og sjónvarpi. Með því fáum við fjölbreyttar sögur samfélagsins okkar.
Mig langar að kynbundið ofbeldi, þöggun, gaslýsingar og annars konar ofbeldi eigi sér ekki stað í starfsumhverfi fólks. Ég vil að öll upplifi öryggi á sínum vinnustað. Ofbeldi á hvergi heima.
Mig langar að það sé jafnrétti kynjanna þegar það kemur að úthlutun styrkja.
Mig langar að fræðast og fræða aðra um jafnrétti kynjanna.
Mig langar svo ótrúlega margt! Þetta er ástæðan fyrir því að ég vildi taka formennsku WIFT á Íslandi að mér því jafnrétti kynjanna skipta mig máli bæði í samfélaginu og starfi.
Já, af hverju ekki ég? Ég ætla að leggja hræsnara heilkennið (e. Imposter syndrome) til hliðar og gera mitt besta í að vinna fyrir WIFT á Íslandi, því hvað er betra en jöfn tækifæri og öryggi fyrir öll?