Um síðustu helgi sótti ég pallborðsumræður á vegum EWA (European womens audiovisual network) sem vöktu talsverða athygli á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín á dögunum. Fjallað var um pallborðsumræðurnar á vefsíðu Hollywood reporter.

Anna Serner, forstöðukona sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar sat í pallborðinu en hún virðist hafa átt frumkvæðið að útpældri jafnréttisáætlun Svía. Hin pólska Anna Wydra (framleiðandi) hafði ekki tekið eftir því að það hallaði á hlut kvenna í greininni fyrr en hún tók saman upplýsingar fyrir fundinn um fjölda kvenna sem höfðu starfað við myndirnar hennar. Anna varð fyrir hálfgerðu áfalli þegar hún sá hversu fáar konurnar í raun voru. Sanja Ravlic er í forsvari fyrir jafnréttisrannsóknarhóp á vegum Euroimage og það kom á óvart hversu stutt á veg hópurinn er kominn, þar sem upplýsingarsöfnun er í raun fyrsta skrefið í átt að aðgerðum.

Mörg Evrópulönd og Bandaríkin hafa tekið saman tölfræði sem sýnir sláandi niðurstöður um hversu ósýnilegar konur eru innan kvikmyndagerðar. Þrátt fyrir það eru efasemdarraddirnar alltaf háværar og flestir sannfærðir um að staðan sé betri en hún í raun er. Tölfræðin er öflugt vopn í baráttunni fyrir auknum hlut kvenna en mikil vinna er framundan. Þetta vita Svíar og eru komnir langt fram úr okkur hinum.

Sænska kvikmyndamiðstöðin hefur hrint í framkvæmd jafnréttisáætlun sem hófst fyrir 8 árum og líkur 2015. Á tímabilinu ætlar sænska kvikmyndamiðstöðin að úthluta konum og körlum jafn miklu fjármagni til kvikmynda, nánar tiltekið handritshöfundum, leikstjórum og framleiðendum. Á þeim 8 árum sem liðin eru hafa konur og karlar hlotið jafn háa styrki til heimildar- og stuttmynda. Enn hallar á konur þegar kemur að kvikmyndum í fullri lengd, en konur fengu í sinn hlut aðeins 30% styrkja. Ástæðan er m.a. að konur hafa ekki sótt um styrki í sama mæli og karlar. Síðastliðin 3 ár hafa konur hreppt aðalverðlaun sænsku kvikmyndaakademíunnar fyrir bestu kvikmyndina í fullri lengd.

Anna Serner bauðst til að kynna öllum jafnréttisáætlun sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar og hvetur sem flestar þjóðir til að taka hana upp. Hún varar þó við andstöðu þegar slík jafnréttisáætlun kemur til framkvæmda – ekki síst meðal hæfileikaminni karlmanna sem missa forréttindi sín og þurfa að mæta harðari samkeppni um fjármögnun. Anna blæs á sögusagnir um að ekki sé nóg til af hæfileikaríkum konum. Þær eru þarna úti en tækifærin hafi bara ekki verið til staðar og jafnréttisáætlunin muni breyta því.

Hér má finna link á jafnréttistefnu sænsku kvikmyndamiðstöðvarinnar http://sfi.se/genderequality

Við hjá Wift mælum eindregið með því að álíka stefna verði tekin upp hér á landi.
Dögg Mósesdóttir formaður Wift á Íslandi.