Keep Frozen eftir Huldu Rós Guðnadóttur keppir í flokki bestu heimildamynda á Nordisk Panorama (Malmö 16.-21. sept.), auk þess sem nýliðarnir Anna Gunndís Gunnarsdóttir og Katrín Björgvinsdóttir keppa með stuttmyndir sínar I Can’t Be Seen Like This og Bestu vinkonur að eilífu amen, um titilinn Besta nýja norræna röddin.

Þá verða þrjú íslensk verk í vinnslu kynnt í Forum hluta hátíðarinnar, en þau eru Love Always eftir Kristínu Andreu Þórðardóttur, The Far Traveller eftir Jóhann Sigfússon og Permaculture Preacher eftir Heather Millard og Þórð Jónsson.

Íslenskar myndir hafa verið sigursælar á Nordisk Panorama undanfarin ár og var t.d. mynd Yrsu Roca Fannberg, Salome valin besta heimildamyndin á Nordisk Panorama 2014.