Hljómsveitin Dúkkulísur er ein fyrsta íslenska hljómsveit landsins sem eingöngu er skipuð konum og er enn starfandi, 32 árum eftir stofnun. Hljómsveitin, sem er skipuð sjö konum, hefur alla tíð lagt metnað sinn í að semja eigið efni og hefur verið ófáum stelpum/konum fyrirmynd í hljómsveitarbransanum. Í heimildarmyndinni Konur rokka er saga hljómsveitarinnar rifjuð upp í tali og tónum en jafnframt er myndin ferðasaga hljómsveitarinnar austur á land, á æskuslóðir, til Færeyja og til Berlínar þar sem hljómsveitin vann að laginu Miklu meira en nóg.

Í myndinni er fylgst með fæðingu og fæðingarhríðum nýja lagsins um leið og ferðasaga hljómsveitarinnar er rakin. Velt er upp spurningum eins og hvernig þeim hefur tekist að starfa saman í öll þessi ár og hvað hvetur þær áfram, eiga þær að halda ótrauðar áfram eða er komið miklu meira en nóg? Ferðalag hljómsveitarinnar hefst á Egilsstöðum þar sem þær hófu ferilinn aðeins 15-17 ára gamlar. Þaðan er haldið til Færeyja þar sem þær troða upp, m.a. á 17. júní hátíð. En helsta verkefnið er að taka upp lagið Miklu meira en nóg í hljóðveri eins þekktasta hljóðupptökumanns Færeyja. Þær slá enn fremur upp konuboði á Seyðisfirði og halda tónleika í Atlavík, þar sem þær vöktu athygli fyrir rúmum þremur áratugum.

Fylgst er með vináttu og samstarfi hljómsveitarmeðlima og þeim fylgt eftir í hinum ýmsu ævintýrum. Myndin er fræðandi en á sama tíma er hún hvatning til allra kvenna að láta drauma sína rætast og berjast fyrir jafnri stöðu kynjanna í hvaða umhverfi og á hvaða tíma sem er.

Um myndina

  • Flokkur: Heimildamynd
  • Frumsýnd: 19. júní, 2015
  • Tegund: Tónlistarmynd
  • Lengd: 63 mín.
  • Tungumál: Íslenska

Aðstandendur og starfslið

Fleiri

Fyrirtæki