Það eru forréttindi að fá tækifæri til að lifa sig inn í líf kvenna víðs vegar um veröldina, þó ekki sé nema nokkra haustdaga í Lundúnaborg. Auðvitað ætti að vera sjálfsagt að geta horft á álíka margar myndir eftir bæði kynin, með konur og karla á öllum aldri í aðalhlutverkum, en því miður þurfum við sjálfsagt að bíða aðeins lengur eftir því.

Framkvæmdastjóri kvikmyndahátíðarinnar í Lundúnum, Clare Stewart, hefur undanfarin ár lagt áherslu á að kvikmyndagerð þurfi á meiri fjölbreytni að halda. Henni hefur verið tíðrætt um þörf á fleiri myndum eftir konur og um konur, og valið slíkar myndir á hátíðina. Í fyrra var opnunarmyndin Suffragette, og meðal mynda sem urðu vinsælar má nefna Carol og Brooklyn. Árin á undan vöktu Saving Mr. Banks og Philomena verðskuldaða athygli. Í fyrra sagði Clare að þó árið væri helgað konum væru ekki nærri nógu margar myndir eftir konur á hátíðinni. Á þessu sextugasta afmælisári bætti hún úr því. Af 254 myndum sem sýndar voru á hátíðinni voru 114 þeirra eftir konur auk fjölmargra mynda þar sem konur voru í aðalhlutverkum. Aðsókn á hátíðina hefur aukist um heil 18% frá því í fyrra svo það fór greinilega vel í fólk.

Sigurvegari aðalverðlauna hátíðarinnar var myndin Certain Women eftir Kelly Reichardt, ljóðræn og falleg mynd um þrjár ólíkar konur í Montana. Með aðalhlutverk fara Laura Dern, Michelle Williams og Kristen Stewart. Sögur kvennanna fléttast saman á áhugaverðan hátt í mynd, sem er hæggeng og minnir um margt á Brokeback Mountain. Það var svolítið misvægi í sögunum fannst mér, en ég var hrifin og myndin situr lengi í manni.

Leikstjórinn sem hlaut verðlaunin fyrir fyrstu mynd var einnig kvenkyns, hin franska Julia Ducournau fyrir Grave, sem er þroskasaga ungrar konu sem uppgötvar að hún hefur smekk fyrir hráu kjöti. Best að segja ekki meira en myndin er í hryllingsmyndageiranum.

Opnunarmyndin var A United Kingdom eftir Amma Asante.

Í heimi sem elur um þessar mundir á ótta og fordómum er vel við hæfi að opnunarmynd Kvikmyndahátíðarinnar í Lundúnum væri ástarsaga sem breytti heiminum, saga um það þegar ást, skynsemi og umburðarlyndi bar sigur af hólmi í baráttu við kúgun og óbilgirni. Árið 1948 hitti Seretse Khama, konungur þess svæðis sem nú heitir Botswana, skrifstofustúlkuna Ruth Williams á dansleik í London. Þau urðu yfir sig ástfangin og gengu í hjónaband stuttu síðar, þrátt fyrir andstöðu fjölskyldu og vina. Þegar Seretse lauk námi í Bretlandi þurfti hann að snúa aftur til Afríku til að sinna skyldum sínum sem konungur, en í heimalandinu var illa séð að hann kæmi heim með hvíta eiginkonu. Þegar samskipti Afríku og Bretlands byrjuðu að stirðna gerðu bresk stjórnvöld einnig allt til að stía þeim í sundur. David Oyelowo og Rosamund Pike eru heillandi í hlutverkum Seretse og Ruth og handritið ágætlega skrifað. Kvikmyndatakan falleg og gaman hvernig mismunandi litaskalar landanna, gráir og kaldir litir Lundúnaborgar og eildheitir litatónar Afríku ýta undir frásögnina.

Amma Asante vakti athygli með mynd sinni Belle, og sannar nú að hún er ein þeirra ungu, bresku leikstjóra sem vert er að fylgjast vel með. Hér talar hún um hve fáar svartar konur eru kvikmyndaleikstjórar, á blaðamannafundi sem haldinn var á LFF.

Their Finest heitir nýjasta mynd hinnar dönsku Lone Scherfig með Gemma Arterton í aðalhlutverki.

Myndin fjallar um unga stúlku í seinni heimstyrjöldinni, sem reynir fyrir sér sem handritshöfundur. Myndin er byggð á skáldsögu Lissa Evans, en handritið skrifar Gaby Shiappe, sem meðal annars er höfundur sjónvarpsþátta um hina einstöku lögreglukonu Veru, en líka Shetland og The Paradise. Their Finest er skemmtileg mynd sem, auk þess að vera mikilvæg heimild um stöðu kvenna á stríðsárunum, er í senn ástarbréf Lone til kvikmyndanna og til London.

Gemma Arterton og Sam Claflin ræða hér um hve óréttlæti vegna kynjamuns var stór hluti af daglegu lífi kvenna á þessum árum.

Houda Benyamina heitir ung, frönsk leikstýra af marokkóskum ættum. Hún er höfundur myndarinnar Divines sem keppti um verðlaun í flokki nýliða á LFF og fékk sérstaka viðurkenningu.

Myndin hreppti líka Caméra d’Or verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor. Divines er þroskasaga unglingsstúlkunnar Dounia, sem býr í einu fátækrahverfa Parísar með drykkfelldri móður, sem hún þarf oftar en ekki að sjá um. Stúlkan er jaðarsett og kölluð bastarðurinn, uppnefni sem ærir hana. Besta vinkona hennar er Maimouna. Dounia dreymir um betra líf og eina leiðin sem hún kemur auga á til að losna úr eymdinni er að gerast eiturlyfjasali, vinna fyrir eldri stelpu sem er sú harðasta í bransanum. Persónurnar eru vel mótaðar og leikurinn óaðfinnanlegur. Stelpurnar sem fara með aðalhlutverkinn vinna mann á sitt band á fyrstu mínútunum. Divines er feminísk gangsteramynd, kynhlutverkum kollvarpað en hún er líka vinkonumynd með fallega vísun í Thelmu og Louise. Að sumu leiti ekki ósvipuð Girlhood og þar sem hún kemur út svo stuttu á eftir henni er samanburður óhjákvæmilegur. Sumum finnst Divines ekki nógu stílhrein, og víst er að seinni hluti myndarinnar flæðir ekki alveg jafn vel og sá fyrri. Magnað byrjendaverk samt sem áður, og myndin er spennandi, töff, fyndin, pólitísk, falleg, sorgleg og hún snerti mig djúpt. Dounia og Maimouna skutust eldsnöggt ofarlega á lista yfir mínar uppáhalds persónur í kvikmynd.

Réparer les vivants eftir Katell Quillévéré er mynd sem ekki hefur farið hátt, en ég varð afskaplega hrifin af.

Einhverjir lesenda þekkja franska leikstjórann Katell Quillévéré, enda vöktu fyrri myndir hennar, Un poison violent og Suzanne töluverða athygli. Í þessari þriðju mynd sinni í fullri lengd ræðst hún ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Myndin segir sögu líffæragjafa og -þega, aðstandenda þeirra, og starfsfólks sjúkrahúsanna sem koma að líffæragjöfinni. Viðkvæmt og flókið efni sem auðvelt hefði verið að klúðra. Í staðinn nær myndin manni á sitt band strax í upphafi, perónurnar eru trúverðugar og nálgunin mannleg. Það er ekki algengt að tengjast sögupersónum strax í upphafi og láti sig þær varða. Sérstaklega er það óalgengt þegar perónurnar eru jafn margar og hér er raunin. Það gerðist nú samt og ég hugsa stundum til þeirra ennþá, þremur mánuðum síðar. Katell hefur auga fyrir smáatriðum og öllu því sem gerir hversdagslega hluti einstaka. Tvö af uppáhalds atriðunum mínum eru þegar örþreyttur unglæknir horfir á páfagaukamyndband til að róa hugann, og þegar hjartaþeginn horfir á ET með uppkomnum sonum meðan hún bíður eftir símtali frá sjúkrahúsinu. Sterk mynd og vel leikin.

Queen of Katwe eftir Mira Nair var líka sýnd á hátíðinni.

Myndin er byggð á sannri sögu og fjallar um hina 10 ára Phiona Mutesi frá Úganda. Þrátt fyrir að vera ólæs hefur stúlkan einstaka hæfileika í skák, og Harriet móðir hennar gerir allt til að dóttir hennar fái að njóta sín. Lupita Nyong’o leikur Harriet og Madina Nalwanga hinn unga skákmeistara.

American Honey eftir Andrea Arnold vakti mikla athygli á LFF eins og annars staðar sem hún hefur verið sýnd.

Hér er á ferðinni vegamynd um unglingsstelpu sem gengur til liðs við hóp sem ferðast um og selur tímarit. Aðallega vegna þess að hún heillast af leiðtoganum, hinum myndarlega Jake, sem Shia LaBeouf leikur. Hún fer með honum, þó henni finnist skelfilegt að skilja yngri hálfsystkinin eftir með úrvinda móður og sífullum kærasta hennar.

Rara eftir Pepa San Martin er mynd frá Chile og Argentínu, sem ég vona að flestir fái tækifæri til að sjá.

Myndin er þroskasaga sem sögð er út frá sjónarhorni unglingsstúlku. Hún og yngri systir hennar búa hjá mömmu sinni og kærustunni hennar, sem þær eru afar hændar að. Systurnar fara til pabba sins og konunar hans reglulega. Í uppsiglingu er forræðisdeila, sem eðli málsins samkvæmt leggst illa í systurnar, enda þykir þeim vænt um alla aðila. Þær verða líka fyrir töluverðu aðkasti í skólanum, velta fyrir sér hvers vegna þeirra líf þurfi að vera öðruvísi en annarra. Á sama tíma er sú eldri þeirra, Sara, að breytast úr barni í ungling. Vel leikin, skemmtileg og falleg þroskasaga, sem fær mann til að hugsa um hvernig fordómar geta leynst í smáum og hversdagslegum hlutum, sem við gefum ekki gaum.

Í lokin er rétt að geta þess að margar mynda eftir karlmenn á hátíðinni fjölluðu um konur. Ein af þeim sem ég var hrifnust af heitir A Date For Mad Mary og er eftir Darren Thornton.

A Date for Mad Mary er skemmtilega skrifuð og einstaklega vel leikin írsk mynd, sem keppti um verðlaun fyrir fyrstu mynd leikstjóra. Fyndin og ljúfsár þroskasaga um sanna vináttu og sjálfsmyndarleit. Mary er nýkomin úr sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás. Fyrsta verkefnið sem bíður hennar utan rimlanna er að vera brúðarmær bestu vinkonunnar. Auk þess að skrifa ræðu, bóka myndbandsupptöku og máta kjóla, verður hún að finna einhvern sem getur í það minnsta látist vera kærasti hennar í brúðkaupinu. Allir líta á Mary sem vandræðagemling og hún er föst í því hlutverki. Hún veit varla hvers vegna, og ekki heldur hvernig, hún á að breyta því. Mary er þurr á manninn, kaldhæðin og árásargjörn, en bak við þá skel leynist afar viðkvæm og falleg sál. Atriðin þar sem dæmigert brúðkaup er undirbúið eru skondin og sýna á áhugaverðan hátt fáránleika margra siða sem tengjast brúðkaupum. Leit Mary að kærasta er ekki síður fyndin, þó undirtónn myndarinnar sé dökkur. Frábær snúningur á þeim flokki sem gjarnan er kenndur við rómantískrar brúðkaupskómedíur. Kvikmyndin er byggð á leikriti eftir Yasmine Akram, en leikstjórinn skrifaði handritið ásamt Colin, bróður sínum. Með hlutverk Mary fer Seána Kerslake, hún er afspyrnu fín leikkona, sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.

Höfundur: Sigga P.