Á dögunum kom fram frétt þar sem ítalski leikstjórinn, Bertolucci staðfestir í viðtali árið 2013 að eitt umdeildasta nauðgunaratriði í sögu Hollywood,var í raun ekki leikið heldur skipulagt af Bertolucci og Marlon Brando án vitundar leikkonunar Mariu Schneider.
Marlon Brando var 48 ára og Maria Schneider aðeins 19 ára þegar að Marlon Brandon nauðgar henni fyrir framan myndavélarnar. “Eftir atriðið þá huggaði Marlon mig ekki eða baðst afsökunar og sem betur fer var bara ein taka“ segir Maria Schneider í viðtali við Daily Mail.
Saga Mariu Schneider er ekkert einsdæmi en margir af þekktustu leikstjórum sögunnar, hinir svokölluðu “meistarar” eða “snillingar” kvikmyndalistarinnar, hafa verið ásakaðir um kynferðisofbeldi eins og þekkt er í tilvikum Woody Allen, Roman Polanski og nú nýlega Bryan Singer leikstjóra X-Men myndanna.
Hinir miklu meistarar, voru valdamiklir “snillingar” og sumir hverjir nýttu sér vald sitt í nafni listarinnar og brutu á leikkonum sínum fyrir framan myndavélarnar, þar er Bertolucci ekki einn.
Ofsóknir Hitchcock á Tippi Hedren
Í ævisögu Tippi Hedren, aðalleikkonu Hitchcock í The Birds, kemur m.a. Fram að Hitchcock hafi áreitt hana kynferðislega í limósínu hans þar sem hann “stökk á hana”. Hún segist ekki hafa sagt neinum frá þessu á sínum tíma þar sem að á sjötta áratugnum var ekkert til sem hét kynferðisleg áreitni.
Hún segir jafnframt að seinna hafi hann gripið í hana og lagt hendur á hana á skrifstofu sinni.
“Því meira sem ég bariðst á móti því ágengari varð hann. “Svo komu hótanir, þar sem hann hótaði að fara enn ver með mig næst” segir Tippi.
Þegar að Tippi hafnaði honum hótaði hann að eyðileggja feril hennar sem leikkonu.
Hún var á sjö ára samningi hjá honum þar sem hann bannaði henni að taka að sér hlutverk hjá öðrum leikstjórum og kom í veg fyrir að sótt væri um óskarsverðlaunatilnefningu fyrir hana.
Hér er viðtal sem Huffington Post tók við Tippi þar sem hún talar um samband hennar við Hitchcock
Hryllingurinn í The shining
Leikkonan Shelley Duvall komst í fréttirnar fyrir stuttu eftir að hafa komið fram í umdeildum þætti Dr. Phil en Shelley á við geðræn vandamál að stríða. Dóttir Stanley Kubrick stendur nú fyrir söfnun fyrir meðferð fyrir Shelley en hún lék einmitt í kvikmyndinni The Shining sem Stanley Kubrick leikstýrði.
Samkvæmt moviepilot.com hafði Steven King, höfundur bókarinnar sem myndin er byggð á, óbeit á myndinni sem nú er talin ein af meistarverkum kvikmyndasögunnar. Hann segir persónu Shelley einkennasta af einhverri mestu kvenfyrirlitningu í persónusköpun sem hefur sést á hvíta tjaldinu. “Eini tilgangur hennar er að öskra og láta heimskulega, sem er ekki konan sem ég skrifaði” segir Steven King.
Kubrick einangraði Shelley og lét hana endurtaka hina frægu hafnarboltasenu 127 sinnum.
Tökur á myndinni stóðu yfir í ár og allt árið þurfti Shelley að margendurtaka senur þar sem hún var á hlaupum, óttaslegin, oftar en ekki með barn í fanginu. Tökurnar tóku svo mikið á hana að hún fór að missa hárið eins og fjallað er eftirminnilega um í heimildarmyndinni Stanley Kubrick: a life in pictures sem er einmitt eftir Vivian Kubrick dóttur Kubrick sem nú stendur fyrir söfnuninni fyrir Shelley. Í dag á Shelley við alvarleg geðræn vandamál að stríða sem margir telja að eigi rætur sínar að rekja til meðferðar Kubrick á Shelley við gerð myndarinnar The Shining.
Nauðgun í nafni súrrealismans
Alejandro Jodorowsky, meistari súrrealískrar kvikmyndagerðar, ljóðskáld og tarrot lesari, gaf út bók um gerð hinnar goðsagnakenndu kvikmyndar El Topo, þar sem hann játar að hafa nauðgað mótleikkonu sinni. Glen F. Wright bendir á þetta í bloggi sínu nighmarealleys en nánast ekkert hefur verið fjallað um þessa játningu í fjölmiðlum. Leikkonan Mara Lorenzino átti við geðræn vandamál að stríða eftir að hafa tekið of stóran skammt af LSD þegar að Alejandro Jodorowsky bauð henni að leika í kvikmyndinni. Ólíkt Bertolucci þá útskýrði Alejandro Jodorowsky fyrir Mara að henni yrði nauðgað, fór svo með hana út í eyðimörkina ásamt tökuliði og nauðgaði henni. Jodorowsky segir að Mara hafi talað um að henni hafi verið nauðgað áður en þarna hafi hún fengið “raunverulegu fullnægingu” líkt og gerist fyrir persónu myndarinnar.
Margt bendir til þess að meistararnir voru ekki þeir einu heldur aðeins toppurinn á ísjakanum þar sem kynbundið ofbeldi fékk að viðgangast fyrir aftan og framan myndavélarnar. Þar hefur feðraveldið, allt til dagsins í dag, fengið að vaxa og dafna sem endurspeglast síendurtekið í karllægum kvikmyndum þessa tæplega 200 ára miðils. Karllægum kvikmyndum þar sem konum hefur síendurtekið verið misþyrmt, nauðgað og þær drepnar, þar sem konur tala ekki né hafa skoðanir, heldur eru viðhengi karla, þar sem rödd kvenna hefur verið þögguð í áhrifamesta miðli okkar samtíma.
Höfundur: Dögg Mósesdóttir, formaður Wift.is