WIFT (Women In Film and Television) á Íslandi stóð fyrir gjörningi á Eddunni um síðustu helgi þar sem konur í kvikmyndagerð mættu í jakkafötum. Tilgangur gjörningsins var ekki að gagnrýna úthlutanir kvikmyndasjóðs heldur að vekja athygli á hversu einsleitt samfélagið er þegar aðeins sögur karla eru sagðar og sýn karla ein metin vænleg til framleiðslu. Tilgangurinn var heldur ekki að gera lítið úr karlkyns kollegum okkar heldur var tilgangurinn að skapa umræðu um þetta alvarlega vandamál sem veik staða kvenna innan stéttarinnar er. Eina vænlega leiðin til lausnar er að hlaupa ekki í vörn, draga ekki umræðuna á villigötur og viðurkenna vandamálið.

Eddutilnefningarnar gefa okkur mikilvægar vísbendingar; konur eru ekki sýnilegar, hvorki fyrir framan eða aftan myndavélarnar. Ef tekið er mið af aukningu kvenhlutverka síðustu tuttugu árin mun það taka okkur 700 ár að jafna kynjahlutfallið á hvíta tjaldinu. Skortur á sögum og sýn kvenna og kynfærabundin sýn karla á konur er beygla sem veldur stöðnun í kvikmyndagerð. Það er ólíðandi að listgrein sem telur sig brautryðjandi og framsækna sætti sig við slíkan skort og viðhaldi þannig misrétti innan þjóðfélagsins og jafnvel auki það.

Kvikmyndir eru nefnilega öflugur miðill sem hefur afgerandi áhrif á skoðanir fólks og viðhorf. Rannsóknir sýndu t.a.m. að eftir áhorf á átján þætti þar sem forseti bandaríkjanna var kona voru áhorfendur 68% líklegri til að kjósa konu sem forseta. Eftir að sýningar hófust á CSI stórjókst áhugi kvenna á meinafræði í Bandaríkjunum. Þess vegna er skortur á konum í ráðandi hlutverkum í kvikmyndum og sjónvarpi hættuástand eins og Kristín Jóhannesdóttir komst að orði í ræðu sinni á Eddunni og kallaði þjóðfélagsmein. Kvikmyndir skipta máli, kyn skiptir máli. Horfum opnum og gagnrýnum augum á stöðuna og krefjumst breytinga. Í lausninni felst áframhaldandi sókn kvikmyndagerðar á Íslandi og skiptir okkur öll máli.

Með vinsemd,
Stjórn WIFT á Íslandi