Núna þegar við Íslendingar horfum upp á þann stórfelldan skaða sem að Covid-19 er að valda í samfélaginu okkar er gott að muna að það eru fleiri hópar á Íslandi sem að munu þurfa aðstoð fjárhagslega en launþegar í fastri vinnu hjá fyrirtæki eða stofnun.

Á Íslandi eru tæp 9% vinnuaflsins skráð sem sjálfstætt starfandi. Þau vinna flestöll á eigin kennitölu og selja vinnu sína eða þjónustu. Allt frá smiðum yfir í sjúkraþjálfara og kamerukonur.

Ekkert val um
Þeir sem að starfa á þennan máta, hafa margir hverjir ekki val um neitt annað en að vinna sjálfstætt í eigin rekstri. Fólk í kvikmyndabransanum eru gott dæmi um það. Verkefnin fara í gang og það þarf að manna allar stöður, svo lýkur verkefninu og verktakinn finnur sér annað launað verkefni.

Áhrifin leiða til allra
Kórónaveiran hefur þegar haft áhrif á kvikmyndageirann á Íslandi og erlendis. Leikstjórar eru að frumsýna myndir fyrir tómum sal, myndir sem margar hverjar tóku mörg ár í þróun og gerð. Hátíðum um allan heim hefur verið aflýst, hátíðir sem eru gífurlega mikilvægur vettvangur í fjármögnun verkefna og til að koma kvikmyndum í dreifingu um allan heim. Hætt hefur verið við fundi víðsvegar, framleiðendur halda að sér höndum og verkefni fara ekki í gang af hræðslu við smit eða skort á fjármagni.

Þetta er bara brot af því sem mun henda ef veiran heldur áfram á sömu braut. Áhrifin munu leiða niður til allra sem að vinna í bransanum þegar að verkefnum fækkar.

Hugsa til allra á vinnumarkaðinum
Það er mikilvægt að hugsa til allra sem að eiga eftir að lenda í tjóni út af sóttkví eða veikindum. Við getum ekki öll rukkað atvinnurekanda okkar um veikindagreiðslur.

Við verðum að sjá til þess að sjálfstætt starfandi fólk á Íslandi fái aðstoð rétt eins og launþegar. Mannsæmandi bótagreiðslur í sóttkví og fjárhagslegt öryggi á þessum tímum. Það er gott að breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa koma til móts við sjálfstætt starfandi. En ekki má gleyma að sóttkví hefur áhrif á alla sem í henni lenda.