Spurningin ætti kannski ferkar að vera þessi: Er farið að hilla undir sérstaka handritshöfundastétt á Íslandi? Fyrstu tíu árin eftir stofnun Kvikmyndasjóðs (eða 1980-1990) komu einungis þrír “hreinræktaðir” handritshöfundar að gerð handrita að íslenskum bíómyndum. Einn þeirra skrifaði handritið í samvinnu við leikstjórann en hinir tveir eru krediteraðir sem sólóhöfundar. Samtals þrjár myndir af 27 (11%). Hinar 24 myndirnar (89%) voru skrifaðar af leikstjórum og/eða framleiðendum.

Með “hreinræktuðum” á ég auðvitað við handritshöfunda sem vinna við skriftir einvörðungu, s.s. gegna ekki jafnframt öðrum lykilhlutverkum við gerð kvikmyndarinnar. Eins og það að leikstýra henni, framleiða, leika í henni o.s.frv.

Á næstu 10 árum (1990-2000) snarfjölgaði handritshöfundum. Fimm höfundar eru með sólókredit fyrir handrit og auk þess eru fjórar kvikmyndir á tímabilinu skrifaðar í samvinnu handritshöfundar og leikstjóra (í einu tilfelli framleiðanda). Samtals koma handritshöfundar að 9 myndum af 30 (30%) á árabilinu.

Á fyrsta áratug nýrrar aldar fjölgar handrithöfundum svo enn. Í 9 kvikmyndum eru handritshöfundar með sólókredit (eða tveir/þrír höfundar skráðir fyrir handriti myndarinnar). Í 10 tilfellum eru handritin skrifuð í samvinnu leikstjóra og handritshöfunda(r). Samanlagt gera þetta 19 kvikmyndir af 43, eða 44%.

Handritshöfundum hefur verið að fjölga hægt og bítandi segir tölfræðin okkur. Í upphafi kvikmyndavorsins var ekki nema (sirka) eitt handrit af hverjum tíu sem var skrifað af “hreinræktuðum” skríbent. Eftir aldamót er þetta hlutfall komið upp í sirka fjögur og hálft. Sem er ekki ýkja hátt, innan við helmingur. Eftir 30 ár eru leikstjórar sumsé enn ráðandi í þessu sporti sem heitir handritsgerð, hvernig svo sem menn vilja útskýra það. Þetta sést t.d. þegar skoðuð eru sólókredit leikstjóra fyrir handrit. Á 9. áratugnum voru meira en helmingur handrita (52%) skrifuð af leikstjórum (einum). Á 10. áratugnum var þetta hlutfall komið niður í 43%. Á fyrsta áratug nýrrar aldar er þetta hlutfall svotil óbreytt (44%). Stóraukin framlög ríkisins til KMÍ (frá 199 8) virðast ekki hafa haft nein stórvægileg áhrif til eflingar handritshöfundastéttinni.

Aðalþróunin í íslenskri kvikmyndagerð virðist felast í því að framleiðendum vex fiskur um hrygg. Þeim hefur sífellt fjölgað sem fást við framleiðslu eingöngu (framleiðsla verandi listin að útvega peninga). Mjög lengi framanaf létu framleiðendur/meðframleiðendur mjög til sín taka sem meðhöfundar leikstjóra að handritum. En eftir aldamót steinhættu þeir því; fóru væntanlega að sinna öðrum og meira aðkallandi verkefnum. Um leið fóru leikstjórar að leita til handritshöfunda í auknum mæli (bæði nýliða í greininni og fólks með reynslu), ekki síst sem meðhöfunda.

Eins og fram kom í færslunni hér á undan hefur handritshöfundastéttinni smám saman verið að aukast ásmegin á þessum 30 árum sem liðin eru síðan Kvikmyndasjóður var stofnaður. En ekkert þó í líkingu við önnur sérhæfð störf í kvikmyndagerð. Leikstjórar skrifa enn sem áður langflest handritin – ýmist einir eða í samstarfi við aðra. Á 9. áratugnum (þegar einungis einn sérmenntaður handritshöfundur var til a landinu) skrifuðu leikstjórar, einir eða í samvinnu við aðra, 85% bíómyndahandrita. Þetta hlutfall lækkaði niður í 77% á 10. áratugnum. Og hefur haldist á svipuðu róli eftir aldamót (79%). Sjónvarpið og auglýsingabransinn (og í nokkrum mæli kvikmyndaskólar) voru uppeldisstöðvar leikstjóra þeirra og framleiðenda og annarra kvikmyndagerðarmanna sem hrundu íslenskri bíómyndagerð af stokkunum á árunum eftir 1980. Og eru áfram mikilvægir atvinnuveitendur; án þeirra héldust fagmenn í kvikmyndagerð ekki við í greininni.

En sjónvarpsstöðvarnar hafa fram að þessu ekki fúnkerað sem uppeldisstöðvar fyrir handritshöfunda (og enn síður auglýsingabransinn). Nema grínsketsahöfunda auðvitað. Nýir handritshöfundar koma úr annarri átt, úr röðum rithöfunda og leikskálda. 1980 – 1990 Á fyrstu 10 árunum eftir stofnun Kvikmyndasjóðs voru framleiddar 27 kvikmyndir. Af þessum 27 handritum voru 25 skrifuð af leikstjóranum/framleiðandanum, í sumum tilfellum í samvinnu við aðra.

Þeir Ágúst Guðmundsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þráinn Bertelsson voru manna mikilvirkastir á þessu tímabili með fjórar kvikmyndir hvor, eða samtals tólf. Á þessum árum voru kvikmyndagerðarmenn lítill en afskaplega samhentur hópur og ekki mikið fyrir að leita út fyrir sínar raðir. Meðhöfundar leikstjóra að handritum komu nær alltaf úr röðum náinna samstarfsmanna þeirra við gerð myndarinnar. Þráinn Bertelsson skrifaði t.d. Dalalíf og Löggulíf í samvinnu við kvikmyndatökumanninn sinn, Ara Kristinsson. Húsið, Sóley, Hrafninn flýgur og Atómstöðin eru dæmi um myndir þar sem framleiðendur/meðframleiðendur eru meðhöfundar handrits. Með allt á hreinu er skrifað í samvinnu við helstu leikara myndarinar (sem sumir hverjir voru jafnframt framleiðendur hennar).

Friðrik Þór Friðriksson er eini leikstjórinn sem fékk penna utan úr bæ –Einar Kárason rithöfund — til að skrifa með sér handrit (að Skyttunum). Guðný Halldórsdóttir er nokkuð sér á parti vegna þess að hún framleiddi og skrifaði handritið að fyrstu tveim myndunum sínum (Skilaboð til Söndru og Stella í orlofi) en fékk aðra til að leikstýra. Fyrir utan Einar Kárason komu aðeins tveir hreinræktaðir handritshöfundar við sögu íslenkrar bíómyndagerðar á 9. áratugnum: Sveinbjörn I. Baldvinsson sem skrifaði handritið að Foxtrot (e. Jón Tryggvason) og Gerard Wilson sem skrifaði handritið að Kristnihaldi undir jökli (e. Guðnýju Halldórsdóttur).

Með “hreinræktuðum” á ég við handritshöfunda sem eru ekki jafnframt að sinna einhverju öðru lyklistarfi við gerð viðkomandi myndar, eins og t.d. framleiða eða leikstýra eða leika í henni. Sveinbjörn er – held ég – fyrsti íslendingurinn sem lærði handritsgerð við erlendan háskóla. Gerard Wilson (kanadískur handritshöfundur og –kennari) var fenginn erlendis frá.

1990-2000 30 kvikmyndir voru framleiddar á 10. áratugnum, ívið fleiri en á áratugnum þar á undan (27). Í 22 tilvika er leikstjórinn líka skrifaður fyrir handriti, ýmist einn eða með öðrum (í 13 einn og í 9 með öðrum). Ef eitthvað er þá eru framleiðendur/meðframleiðendur enn ötulli við handritsskrif á 10. áratugnum en þeir voru á þeim 9. Í fimm kvikmyndum er framleiðandi meðhöfundur leikstjórans að handritinu (Hin helgu vé, Veggfóður, Á köldum klaka, Dansinn og Tár úr steini). Í einu tilfelli skrifar framleiðandinn handritið í samvinnu við “utanaðkomandi” handritshöfund (Agnes). Og í tveim tilfellum er framleiðandinn krediteraður fyrir handritinu: Guðný Halldórsdóttir sem skrifaði íslenska hluta Ævintýra á Norðurslóðum sem Kristín Pálsdóttir leikstýrði og Bo Jonsson sem skrifaði handritið að Myrkrahöfðingjanum (eftir því sem imdb.com segir) og Hrafn Gunnlaugsson leikstýrði. Sveinbjörn I. Baldvinsson heldur áfram að skrifa kvikmyndahandrit. Svo og Einar Kárason. En fimm “hreinræktaðir” handritshöfundar bætast nú við: Ólafur Haukur Símonarson, Friðrik Erlingsson, Lars Emil Árnason, Einar Már Guðmundsson og Marteinn Þórisson. Í fimm tilvikum fá handritshöfundar sólókredit. Ólafur Haukur Símonarson er einn skrifaður fyrir handritinu að Ryði (e. Lárus Ými Óskarsson) og er það byggt á leikriti hans Bílaverkstæði Badda sem hafði verið sýnt við miklar vinsældir í Þjóðleikhúsinu. Friðrik Erlingsson skrifaði handritið að Benjamín dúfu sem er byggt á barnabók hans samnefndri (Gísli Snær Erlingsson). Einar Kárason aðlagaði skáldsögu sína Djöflaeyjan fyrir kvikmynd (Friðrik Þór Friðriksson). Sveinbjörn I. Baldvinsson skrifar handritið að Sporlaust (Hilmar Oddsson) og Lars Emil Árnason handritið að Blossa (Júlíus Kemp).

Síðan eru það handritin sem höfundar skrifuðu í samvinnu við leikstjóra viðkomandi myndar. Friðrik Erlingsson skrifaði handritið að Stuttum frakka ásamt Gísla Snæ Erlingssyni leikstjóra; Einar Már Guðmundsson er meðhöfundur Friðriks Þórs Friðrikssonar að Börnum Náttúrunnar og Bíódögum, og Marteinn Þórisson er meðhöfundur Jóns Tryggvasonar að handritinu að Nei er ekkert svar. Síðan má bæta við Sveinbirni I. Baldvinssyni sem er einn þriggja handritshöfunda að Tár úr steini en um leið einn framleiðandi myndarinnar.

2000 – 2009 Framleiðsla kvikmynda stóreykst eftir aldamótin, bæði vegna aukinna framlaga ríkisins til KMÍ og lægri tilkostnaðar. Eða öllu heldur: Kostnaðurinn rauk náttúrlega upp en um leið urðu tækniframfarir slíkar að menn gátu notað fermingarmyndavélina sína og heimilistölvuna og búið til bíómyndir fyrir smáskildinga. Einkum ef starfsfólkið sætti sig við að fá útborgað í sponsuðum pizzum og kók.

43 bíómyndir hafa verið gerðar á þessum tæpa áratug. Leikstjórar hafa ekki slegið slöku við því í 34 tilvika skrifuðu þeir líka handritið (í 19 kvikmyndum einir sínir liðs og í 15 tilvikum við annan, þriðja eða fjórða mann). Á nýrri öld bregður svo við að framleiðendur/meðframleiðendur eru nánast hættir að taka þátt í ritun handrita. Annaðhvort er framleiðsla bíómynda orðin svo annasöm að þeir hafa ekki tíma til að sinna ritstörfum ellegar að þeir eru áfram þátttakendur í handritsgerðinni en hættir að setja það á oddinn að fá kredit fyrir.

Eins og fyrr segir eru 15 handrit skrifuð af leikstjóranum við annan mann eða fleiri. Meðhöfundar leikstjóra skiptast í þrjú horn. Í einungis þremur tilfellum eru meðhöfundar jafnframt framleiðendur og/eða nánir samverkamenn/þátttakendur í gerð myndarinnar: Gæsapartí, Reykjavík Guesthouse og Í takt við tímann. Í fjórum kvikmyndum gerir leikstjórinn handritið í samvinnu við leikarahópinn eða hluta hans: Í takt við tímann, Börn, Foreldrar og Brúðguminn. En í flestum tilfellum – eða níu – hafa leikstjórar fengið “utanaðkomandi” handritshöfunda til liðs við sig: Sölva Jónsson (sem skrifaði handritið að Gildrunni ásamt Hjálmari Einarssyni); Árna Ásgeirsson (handritið að Maður eins og ég ásamt Robert Douglas); Einar Kárason (Fálkar ásamt Friðriki Þór Friðrikssyni); Birnu Önnu Björnsdóttur og Oddnýju Sturludóttur (Dís ásamt Silju Hauksdóttur); Edward Martin Weinman (Skroppið til himna ásamt Baltasar Kormáki), Jón Atla Jónasson (Blóðbönd ásamt Árna Ásgeirssyni), Stefan Schaefer, Dag Kára o.fl. (Stóra planið ásamt Ólafi Jóhannessyni); Jean-Luc Gaget (Skrapp út ásamt Sólveigu Anspach) og Arnald Indriðason (Reykjavík Rotterdam ásamt Óskari Jónassyni). Loks er að nefna þær kvikmyndir þar sem “hreinræktaðir” höfundar, einn eða fleiri, fá allan kredit fyrir handrit. Á 9. áratugnum voru einungis tvö slík tilfelli (Foxtrott og Kristnihald undir jökli). Á 10. áratugnum voru þau fimm (Ryð, Benjamín dúfa, Djöflaeyjan, Sporlaust og Blossi). Á þessum áratug eru þau níu: Englar Alheimsins sem Einar Már Guðmundsson skrifaði og er aðlögun samnefndrar skáldsögu; Ikingut sem er frumsamið handrit eftir Jón Steinar Ragnarsson; Regína sem þau skrifuðu Margrét Örnólfsdóttir, Richard Schlesinger og Sjón; Villiljós og Næsland sem Huldar Breiðfjörð skrifaði; Didda og dauði kötturinn, aðlögun Kristlaugar Maríu Sigurðardóttur; Köld slóð sem Kristinn Þórðarson skrifaði; Astrópía sem þeir skrifuðu Ottó Geir Borg og Jóhann Ævar Grímsson og loks Reykjavík Whale Watching Massacre sem Sjón skrifaði. Tölfræðin segir okkur sumsé að handritshöfundum hefur fjölgað, hægt og seigbítandi, á 30 ára starfstímabili Kvikmyndasjóðs. Kvikmyndaleikstjórar af fyrstu kynslóð voru þriggja manna makar, framleiddu, leikstýrðu og skrifuðu handritin.

Fimm þessara manna hafa gert sjö eða fleiri bíómyndir: Ágúst Guðmundsson, Hrafn Gunnlaugsson, Þráinn Bertelsson, Friðrik Þór Friðriksson og Guðný Halldórsdóttir. Friðrik Þór hefur sérstöðu í þessum hópi því hann hefur lagt það í vana sinn að vinna með sérstökum handritshöfundum, hinir frumherjarnir gera það aldrei eða nánast aldrei.

Þegar fram liðu stundir jókst sérhæfingin í íslenskri kvikmyndagerð, til skjalanna komu menn sem sinna framleiðslu einvörðungu. Og nú er farið að hilla undir sérstaka handritshöfundastétt. Sem er þroskamerki. Þegar sérhæfingin er komin á það stig að myndast hefur oggolítil stétt handritshöfunda má segja að íslensk kvikmyndagerð hafi loks slitið barnsskónum.

Greinin er birt með góðfúslegu leyfi höfundar – Önnu Rögnvaldsdóttur