St. Sig: Strigi og flauel er heimildamynd um ævi og störf Steinþórs Sigurðssonar myndlistarmanns og leikmyndahönnuðar. Sagt er frá uppvaxtarárunum í Stykkishólmi, námsárunum í Svíþjóð og á Spáni og skyggnst inn í afar litríkan og áhugaverðan feril Steinþórs við leikmyndahönnun og málaralist en Steinþór er meðal merkustu abstraktmálara sinnar kynslóðar.

Steinþór tilheyrir hópi svokallaðra abstrakt listamanna sem fyrstir kynntu fyrir Íslendingum hið óhlutgerða málverk. Hann var í fyrsta fastráðna leikhópi Leikfélags Reykjavíkur 1961 og starfaði með félaginu fram á tíunda áratuginn. Steinþór hefur auk þess unnið að hönnun og uppsetningu fjölmargra sýninga og viðburða af ýmsu tagi.

Myndin er listasöguleg heimild og segir frá merkum listamanni sem átti sitt blómaskeið á áhugaverðum umbrotatímum í listalífi síðustu aldar. Listsköpun í landinu fékk á þessu tímabili nýjan sess í hugum landsmanna. Listamenn fengu aukið rými og frelsi þegar verk þeirra þurftu ekki lengur að vera realísk eða endurspegla á nákvæman hátt andlitsdrætti ákveðinna persóna eða staði í náttúrunni.

Í myndinni verður rifjuð upp saga Leikfélags Reykjavíkur sem á sjöunda áratug síðustu aldar breyttist úr áhugamannaleikhópi í öflugan hóp atvinnulistamanna. Einnig verður komið inná baráttu leikhópsins fyrir nýju leikhúsi sem endaði með flutningi L.R. úr Iðnó, sem á sínum tíma hafði verið byggt sem félagsheimili iðnaðarmanna, í hið nýja og nútímalega Borgarleikhús sem var sérhannað að þörfum leikfélagsins. Steinþór Sigurðsson starfaði í hjarta þessarar þróunar, bæði sem fulltrúi í byggingarnefnd L.R. og sem ráðgjafi við val á tækni- og sviðsbúnaði í nýja húsið.

Saga Steinþórs er ekki einungis frásögn af svipmiklum og mikilvirkum listamanni heldur gefur hún líka djúpa og lítt þekkta innsýn í heim leikmyndagerðar og sviðshönnunar, hvernig sú listgrein er vandlega hugsaður og afar mikilvægur þáttur í því hvaða hughrif leiksýning hefur á áhorfandann.

Um myndina

  • Flokkur: Heimildamynd
  • Frumsýnd: 6. mars, 2013, Bíó Paradís
  • Lengd: 59 mín.
  • Tungumál: Íslenska

Aðstandendur og starfslið

Fyrirtæki

Þátttaka á hátíðum

  • Edduverðlaunin / Edda Awards, 2014 – Verðlaun: Tilnefnd fyrir heimildarmynd ársins.