Tökum á stuttmyndinni “Munda” lauk í gær en handritið er eftir listakonuna og skáldið Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Tinna Hrafnsdóttir leikstýrir myndinni og Freyja Filmwork framleiðir en meðframleiðandi er Pegasus. Í aðalhlutverkum eru stórleikararnir Guðrún Gísladóttir og Sigurður Sigurjónsson og danska tökukonan Louise McLaughlin tók myndina.
Munda er önnur myndin af fimm Doris Film verkefnum Wift sem fer í framleiðslu. Doris Film verkefnið er eftir sænskri fyrirmynd en allar myndir sem framleiddar eru undir formerkjum Doris Film, verða að hafa konur í öllum lykilhlutverkum fyrir framan og aftan myndavélarnar.
Doris Film á Íslandi byrjaði með handritasamkeppni kvenna þar sem 11 handrit af 102 voru valin og þróuð áfram og að lokum komust 5 handrit í lokaúrslitahópinn.
Stuttmyndin “Regnbogapartý” eftir Evu Sigurðardóttur framleidd af Askja Films var fyrsta Doris myndin sem var fór í framleiðslu og hefur nú unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna. Undirbúningur fyrir tökur á næstu Doris film er að hefjast en handritið er eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur og mun Helga Rakel Rafnsdóttir leikstýra myndinni.
Ein Doris mynd í fullri lengd er í þróun og hefur nú þegar hlotið tvo af þremur handritsstyrkum Kvikmyndamiðstöðvar en handritið er eftir Sóley Kaldal og Dögg Mósesdóttir mun leikstýra myndinni.
Doris verkefnið hefur nú þegar breytt heilmiklu fyrir konur í kvikmyndagerð á Íslandi með því að skapa eftirpurn eftir konum í fleiri stöður við gerð kvikmynda líkt og það gerði fyrir tæplega 20 árum síðan í Svíþjóð þar sem staða kynjanna er jöfnust í faginu á heimsvísu.