Markmiðið er að rannsaka hvernig sögur líta dagsins ljós þegar konur bera ábyrgð á öllum lykilhlutverkum í kvikmyndagerð og þegar konur eru í aðalhlutverki sem söguhetjur.

Dorisfilm verkefnið er aðlögun að sænsku verkefni sem hófst árið 1999 og ól af sér níu stuttmyndir og kennsluefni um kynjahlutföll í kvikmyndum. Í Svíþjóð komu inn 406 tillögur í keppnina sem fór þvert á það sem kvikmyndamiðstöð þar í landi hafði haldið fram; að konur bara skrifi ekki. Doris Film á Íslandi hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði til jafnréttismála .

Doris film á Íslandi hófst með handritasamkeppni sem lauk í maí 2014. Þátttakan hér heima fór fram úr björtustu vonum en alls bárust 102 sögur keppninni. Sett var saman 10 manna dómnefnd, framleiðenda, leikstjóra og handritshöfunda. Kynjahlutföll dómnefndarinnar voru öfugt við það sem tíðkast í kvikmyndageiranum, 8 konur og 2 karlar en oft er talað um að aðeins 20% starfa innan kvikmyndageirans séu í höndum kvenna. Dómnefndina skipuðu framleiðendurnir Anna María Karlsdóttir, Guðrún Edda Þórhannesdóttir, Hanna Björk Valsdóttir, Hlín Jóhannesdóttir, Hrönn Kristinsdóttir, Rakel Garðarsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Baldvin Z leikstjóri og Óttar M. Norðfjörð handritshöfundur.

Sautján handrit hlutu hæstu einkunn dómnefndar en af þeim voru tólf valin til úrslita. Samkeppnin var nafnlaus í fyrstu umferð, en allar sögur þurftu að hafa a.m.k eina kvenpersónu í aðalhlutverki. Verkefnið verður unnið í samvinnu við Wift í Noregi og Doris Film í Svíþjóð og stefnan er að í kringum 5 handrit fari í framleiðsluferli. Myndirnar verða unnar eftir Doris Film sáttamálanum þar sem allar myndirnar eiga að hafa, í það minnsta, eina konu í aðalhlutverki, allar listrænar ákvarðanir og aðalábyrgðarstöður eiga vera í höndum kvenna og öll frumsamin tónlist á að vera samin af konum. Wift og Doris Film á Íslandi vilja þakka öllum sem tóku þátt en margar góður sögur bárust keppninni sem geta vonandi átt framhaldslíf utan Doris.

Allar nánari upplýsingar má nálgast hjá verkefnastjóra á Íslandi Dögg Mósesdóttur, sími 77005777 eða á doggmo@yahoo.com.

Reglur Doris film:

-Öll handrit skulu skrifuð af konum
-Allar myndirnar eiga að vera með í það minnsta eina konu í aðalhlutverki
-Allar listrænar ákvarðanir og aðalábyrgðarstöður eiga vera í höndum kvenna
-Öll frumsamin tónlist á að vera samin af konum

Markmiðið er að rannsaka og stuðla að fjölbreyttari kynjahlutverkum og hlutföllum í myndrænum miðlum þ.e. kvikmyndum, sjónvarpi og öðrum myndrænum miðlum.

Handritin verða skrifuð á Íslandi en verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Wift í Noregi og Doris Film í Svíþjóð. Þegar að handritin fara í framleiðslu verða tökurliðin samansett af fagkonum frá Noregi og mögulega öðrum norðulöndum. Stuttmyndirnar verða sýndar hver fyrir sig auk þess sem þær verða settar saman í kvikmynd í fullri lengd og sýndar í sjónvarpi, á hátíðum og í kvikmyndahúsum víðsvegar um heim og einnig á netinu.

Einnig verður framleitt kennsluefni sem styður við myndefnið og er hægt að nota til að auka þekkingu á myndlæsi með kynjagleraugum á öllum skólastigum. Reynsla er af nýtingu sambærilegs efnis í myndlæsi í menntaskólum og háskólum í Svíþjóð en á Íslandi stendur til að ná til 10 – 12 ára nemenda í grunnskólum.

Einnig er vilji til að þróa samstarf með fræðimönnum innan kynjafræðinnar. Þar sem skoðað er af hverju fjármagn til kvikmyndagerðar skiptist milli kynjanna eins og raun er? Af hverju hallar á hlut kvenna? Hefur það áhrif á sögurnar sem eru sagðar? Hvernig þá?

Með því opnast leiðir til að sækja fjármagn til sjóða er tengjast fræðimennsku, rannsóknum og félagsvísindum. Þessar niðurstöður verða einnig notaðar með fyrrnefndu námsefni.

Verkefnastjóri á Íslandi er Dögg Mósesdóttir formaður Wift og kvikmyndargerðarkona en Þóra Tómasdóttir er aðstoðarverkefnastjóri. Rut Hermannsdóttir, kvikmyndagerðarkona er ráðgjafi verkefnisins . Ráðgjafar eru stjórn Dorisfilm í Svíþjóð, stjórnarformaður er Annika Hellstöm kvikmyndaframleiðandi.