Stuttmyndirnar þrjár sem eru tilnefndar til Edduverðlaunanna 2011 sem Stuttmynd ársins eiga það sammerkt að þær voru allar frumsýndar á RIFF 2010, og það sem meira er; leikstjórar þeirra allra eru konur.

Myndirnar eru Clean eftir Ísold Uggadóttur, Hjartsláttur (Heartbeat) eftir Karolinu Lewicka og Knowledgy eftir þær Hrefnu Hagalín og Kristínu Báru Haraldsdóttur.

Clean segir af Natalie, danskennara fyrir eldri borgara, sem berst við að halda andliti sínu gagnvart umhverfi sínu þrátt fyrir leyndan vanda sem senn verður henni ofviða.

Hjartsláttur fjallar um feimna níu ára stelpu sem heldur sig mjög til hlés en öðlast svo skyndilega kjark til að takast á við ofbeldi með því að stöðva slagsmál.

Í Knowledgy kynnast áhorfendur Michael frá Nýfundnalandi, en hann leigir hjá pari í Reykjavík og leggur stund á kvikmyndanám. Parið hyggst ganga í bandarískan sértrúarsöfnuð og Michael fær leyfi til að gera heimildarmynd um innvígsluathöfnina. Það hefur aftur á móti skrýtnar afleiðingar.

RIFF óskar þessum flottu kvikmyndagerðarkonum innilega til hamingju með árangurinn og tilnefningarnar, og vonar að vegur verka þeirra verði sem mestur í framhaldinu. Og það var myndin Clean eftir Ísold Uggadóttur, sem hlaut verðlaunin að þessu sinni.